141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek bara upp þráðinn þar sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson sleppti honum. Hann var að tala um umhverfisvænu orkuvinnsluna okkar. Það að við séum sú þjóð í heiminum sem er með 80% af okkar orkunýtingu í umhverfisvænni orku er miklu meira en öfundarefni. Það er öfundarefni annarra þjóða en ekki aðeins það heldur er það líka svo að ef allar þjóðir væru eins og Íslendingar þá þyrftum við ekki Kyoto-samkomulag. Þá væri útstreymi gróðurhúsalofttegunda ekki vandamál í heiminum. Þannig er það og það fer ótrúlega lítið fyrir því í umræðunni. Það er svo sérkennilegt að þeir sem stundum hafa einokað umræðuna og eignað sér umhverfisvernd og náttúruvernd sem þeir eiga ekkert í, þeir hafa sína skoðun á því eins og allir aðrir en eiga það ekki, eru í raun í gríðarlega andstöðu gegn því að verið sé að nýta umhverfisvæna orkugjafa en eru um leið að ýta undir að nýttir séu aðrir orkugjafar sem menga verulega og eru taldir, og langflestir eru sammála um það, hnattrænt vandamál.

Mér fannst ágætt að það kom fram hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni og Ásmundi Einari Daðasyni sem skiptust á skoðunum áðan vegna þess að ég ætla í þessari stuttu ræðu minni að velta einu upp: Hver er raunverulegur kostnaðurinn við að ekki hefur náðst sú þjóðarsátt með þessari rammaáætlun sem lagt var upp með? Ég hef áhyggjur eftir að vera búinn að eyða öllum þessum milljörðum og 20 árum í þá vinnu að við sitjum uppi með að vera að sumu leyti að karpa núna. Umræðan hefur verið misjöfn, stundum málefnaleg og góð og stundum á einhverjum öðrum stað. Það lá fyrir að menn yrðu aldrei sammála um þessi mál en alla vega að þeir yrðu sammála um ákveðnar leikreglur. Ég hef áhyggjur af þeim leikreglum sem ég hélt að menn væru sammála um að marka og að okkur auðnist ekki gæfa til að komast að niðurstöðu þegar verið er að klára þetta mál. Það gæti gert það að verkum að við munum í nánustu og kannski fjærstu framtíð halda áfram að deila. Ég ætla ekki að segja að við deilum um aukaatriði en hins vegar deilum við á hátt sem við ætluðum að reyna að koma í veg fyrir að við gerðum með því að fara í þessa vinnu.

Eins og ég hef margoft lýst í þessari umræðu taldi ég að við værum að vinna faglega. Það væri gert faglegt mat á hinum ýmsu virkjunarkostum út frá einhverri aðferðafræði og við kæmumst síðan að niðurstöðu. Það þýddi ekki að við værum þá hætt að deila um þá, þótt eitthvað sé í nýtingarflokki á margt eftir að gerast áður en við förum að nýta viðkomandi stað og þá í þágu umhverfisvænnar orkuvinnslu. Menn geta eðli málsins samkvæmt haft skoðanir áfram, bæði með og á móti því að nýta stað í umhverfisvæna orkuvinnslu. En ef við erum ekki einu sinni sammála um hvar þetta eigi að vera samkvæmt því faglega uppleggi og skapalóni sem var lagt upp með ætla ég ekki að segja að við séum á byrjunarreit í umræðunni en þetta mun gera hana ómarkvissa og miklu erfiðari. Hér erum við að skapa fordæmi sem er hættulegt. Ég hef að vísu ekki mikla trú á því en ég mundi hvetja hv. stjórnarþingmenn sem telja sig vera að vinna einhvern sigur með því að keyra málið í gegn og gera það að flokkspólitísku máli, gera þetta að rammaáætlun (Forseti hringir.) þessarar ríkisstjórnar, til að hugsa aðeins lengra því það kemur dagur eftir þennan dag, þing eftir þetta þing og ríkisstjórn eftir þessa ríkisstjórn.