141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir ræðu hans. Farið hefur verið um víðan völl í umræðunni og meira að segja hafa hvalveiðar komið til umræðu. Ég get eiginlega fullyrt það og við þingmaðurinn erum sammála um að okkur ber að nýta náttúruauðlindir á skynsamlegan máta og þá jafnframt að nota þá auðlind sem í hafinu er, en hvalurinn er ágreiningsefni í augum Evrópusambandsins. Þess vegna langar mig til að spyrja þingmanninn að því sem ég fór yfir í ræðu minni áðan varðandi hinar nýju upplýsingar um að makrílveiðar Íslendinga þvælast ekki lengur fyrir hinni evrópsku samninganefnd svo framarlega sem við Íslendingar verðum Evrópusambandsþjóðum úti um orku.

Við skulum vera minnug þess að Landsvirkjun og orkufyrirtæki okkar framleiða má segja grænustu orku í heimi vegna þess hvernig hún er unnin úr fallvötnum og á jarðhitasvæðum. Ekki þurfum við að brenna kol og ekki þurfum við að hafa hér kjarnorku til að framleiða orku okkar þannig að það eitt gerir orkuna svo græna.

Hvað finnst hv. þingmanni um þá kröfu Evrópusambandsins að þeir ætli jafnvel að lúta í duftið varðandi kröfur sínar á sjávarútvegsauðlind okkar, sem oft hefur verið talað um að verði erfiðasti samningskaflinn, í skiptum fyrir að hér verði lagður sæstrengur til Evrópu í gegnum Bretland? Ef sú verður raunin verður Ísland þá ekki gert að ódýrri framleiðsluþjóð sem flytur út hrávöru í stað þess að flytja út meiri (Forseti hringir.) verðmæti sem við getum skapað hér á landi ef við notum orku okkar sjálf?