141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta andsvar. Málin eru mjög skyld vegna þess að Evrópusambandið hefur nú upplýst að það sækir bæði í rafmagn okkar og fiskveiðiauðlindir. Ég á ekki sæti í hv. utanríkismálanefnd en ég hef á þessu kjörtímabili hitt tvær sendinefndir frá Evrópusambandsríkjum og átt með þeim fund og í bæði skiptin var ég spurð að því hvort Íslendingar segðu já við Evrópusambandssamningi ef Evrópusambandið gerði ekki kröfu á fiskveiðiauðlindina okkar. Ég neitaði því í bæði skiptin vegna þess að ég hef bent á að við eigum svo langtum meira af auðlindum en fiskveiðilögsöguna okkar og þá er ég að vísa í gæði okkar á landi, lofti og láði. Sumar eru í sjó, svo er það heita vatnið, kalda vatnið, innkoma á norðurslóðir o.s.frv. Í bæði skiptin kom á þingmennina sem spurðu mig að þessu. Evrópusambandið vill hingað inn og það er raunverulega viðurkennt að þeir ásælast orku okkar, alla vega fyrsta kastið.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. Jón Gunnarsson hvort það skjóti ekki skökku við að Vinstri grænir gáfu Samfylkingunni fullt frelsi til að koma ESB-umsókninni í gegnum þingið. Samfylkingin kom því í kring að Vinstri grænir fengju að halda verndaráætlun sinni, með rammaáætluninni sem birtist nú, í gegnum þingið. Þetta er stefna Vinstri grænna. Svo krossast það í umsókninni sjálfri vegna þess að Evrópusambandið heldur að við séum að fara að virkja svo mikið hérna að hægt sé að flytja út raforku í gegnum sæstreng og þeir vita jafnvel ekki að á Íslandi er komin í gang virkjunarbannsumræða í boði Vinstri grænna.