141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Hún fór lítillega inn á málefni aðila vinnumarkaðarins og þau loforð sem þeir telja þessa ríkisstjórn hafa svikið og er skemmst að minnast atburðanna sem gerðust hér í síðustu viku.

Það mál hefur aldeilis ekki stoppað. Það kom fram í kvöldfréttum þessa fallega dags sem nú er að kvöldi kominn að aðilar vinnumarkaðarins funduðu í fyrsta sinn eftir að síðustu kjarasamningar runnu út vegna þess að kjarasamningar eru lausir skömmu eftir áramót. Það kom í ljós að Samtök atvinnulífsins ætla ekki að segja upp kjarasamningunum. Þeir ætla að láta þar við sitja og láta þá hækkun sem var samið um í síðustu kjarasamningum yfir sig ganga. Þeir tilkynntu það jafnframt að ef verkalýðshreyfingin ætlaði að segja upp samningunum þá yrði strax um launalækkun að ræða. Sá hnútur sem er kominn þarna á milli Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar er rekinn til ríkisstjórnarinnar vegna þess að ríkisstjórnin gaf ákveðið loforð varðandi framkvæmdir og orkuuppbyggingu við síðustu undirritun. Ég er að sjálfsögðu að vísa í yfirlýsingar frá verkalýðshreyfingunni um að hún væri búin að gefast upp á ríkisstjórninni.

Því spyr ég þingmanninn: Finnst henni ekki ábyrgð þessarar ríkisstjórnar vera orðin mikil ef Samtök atvinnulífsins treysta sér ekki til að hækka laun starfsmanna á almennum vinnumarkaði og segi verkalýðshreyfingin samningunum upp ætla Samtök atvinnulífsins (Forseti hringir.) að lækka laun þeirra sem eru á almennum vinnumarkaði einungis vegna svikinna loforða ríkisstjórnarinnar?