141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:28]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Svikin loforð. Ég gæti staðið hér í tvær mínútur og talað um svikin loforð í rauninni í öllum málaflokkunum sem koma inn á borð ríkisstjórnarinnar. Þær aðstæður sem aðilar vinnumarkaðarins eru núna í eru auðvitað algerlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og engra annarra því allt sem hún hefur komið að hefur hún annaðhvort svikið eða þá eru málin komin í þann farveg að allt er í hnút. Það er allt í rembihnút varðandi þau atriði sem snerta vinnumarkaðinn og til dæmis fyrirkomulag í sjávarútveginum. Það er allt í steik. Við horfum upp á hvernig ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir því hvernig á að breyta stjórnarskránni. Þar er allt í hnút líka. Það eru rembihnútar hvert sem litið er. Ég hef áður sagt það sem amma mín sagði við blessaðan afa minn á sínum tíma um að það væri ekki bara kúnst að hnýta öfluga hnúta. Það væri enn þá meiri kúnst að leysa hnúta sem maður bindur. Það er eitthvað sem ég held að ríkisstjórnin ætti að einbeita sér að að hugsa um, ekki bara um sitt særða stolt heldur hvaða hnúta þarf að leysa til að samfélagið geti haldið áfram að byggja upp hagvöxt. Ég kom inn á hagvöxt í ræðu minni. Við þurfum að fara að efla hann og auka. Það þýðir ekki að byggja hagvöxtinn upp á þeirri einkaneyslu sem hefur drifið hann. Það mun ekki duga til lengri tíma. Við þurfum framkvæmdir, fjárfestingar og raunhæfa rammaáætlun sem er sett þannig fram að hún sé virkilega samspil þess að taka tillit til verndarsjónarmiða og tillit til nýtingarsjónarmiða.

Það er ekki hægt að stimpla fólk annaðhvort umhverfisverndarsinna eða algera nýtingarsinna. Ég held að við séum öll ákveðin blanda af hvoru tveggja. Við elskum náttúruna um leið og við erum raunsæ. Við þurfum að framkvæma. Við þurfum að virkja til að standa undir okkar velferðarsamfélagi.