141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:47]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég á við þegar ég segi að virða beri niðurstöðu verkefnisstjórnar er að þegar ákveðnum aðilum var falið að vinna verkefnið þá var það gert í þeirri trú að hægt væri að ná faglegri niðurstöðu og síðan sátt um þá niðurstöðu sem kæmi. Verkefnisstjórn skilar af sér og síðan skilar formannahópurinn ákveðnum niðurstöðum. Ég er að tala um þetta þegar ég bið um að við hér, í umhverfis- og samgöngunefnd eða atvinnuveganefnd eða einstaka pólitíkusar aðrir, séum ekki að fikta í þeim niðurstöðum heldur látum þær standa og koma til atkvæðagreiðslu á þingi. Það er það sem ég á við þegar ég tala um hina einu réttu, faglegu niðurstöðu.

Hv. þingmaður veit það jafn vel og ég að gert hefur verið ráð fyrir því að farið yrði í virkjun í neðri hluta Þjórsár og þó að ekki hafi verið búið að semja um það hafa menn horft til þess að farið yrði í þær virkjanir báðar. Menn hafa horft til þess lengi vegna þess að þeir hafa séð að það gæti orðið ákveðin lyftistöng fyrir atvinnulífið. Ég segi að það séu forsendur hagvaxtarspár í fjárlagafrumvarpinu 2013 vegna þess að þar er einfaldlega gert ráð fyrir ákveðinni uppbyggingu í stóriðju og virkjunum.