141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir ræðuna. Hún var með vangaveltur um það hvernig stæði á því að búið væri að taka hagkvæma virkjunarkosti úr nýtingarflokki og setja yfir í bið og velti vöngum yfir því hvers vegna virkjanir í Þjórsá, sem voru nánast fullrannsakaðar, voru skyndilega teknar og settar í biðflokk og eins virkjanirnar í kringum Kirkjubæjarklaustur, þ.e. í Skaftárhreppi, tvær virkjanir þar.

Það kemur einhvers staðar fram í gögnum þessa máls að sömu sjónarmið gildi í rökum ríkisstjórnarinnar varðandi bæði Þjórsá og virkjanirnar vestur frá, þ.e. þessi nýju sjónarmið sem heita laxagengd og hrygnunarstaðir laxa sem eru góð og gild svo langt sem það nær.

Mig langar því til að spyrja þingmanninn: Er ekki aðeins of langt gengið í því að byggja upp okkar ágæta samfélag á nýjan leik eftir þær hörmungar sem við urðum fyrir og eftir hörmung tvö má segja, þá að við skyldum hafa fengið þessa ríkisstjórn yfir okkur, að villtir fiskar séu í raun farnir að njóta meiri réttinda en þeir sem í landinu búa að því leyti að okkur sárvantar hagvöxt? Við þurfum að útrýma atvinnuleysi og við þurfum að skapa meiri atvinnu. Eins og við vitum, og þingmaðurinn fór yfir, þá hafa þær aðgerðir að leggja fram þessa rammaáætlun einungis frestunaráhrif á þann uppbyggingarfasa sem ég fór yfir og síðast en ekki síst á aukinn hagvöxt hér.