141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:09]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil biðjast afsökunar á bráðlætinu að fara í ræðustól áður en hæstv. forseti gaf mér orðið, en ég taldi að rétt væri að reyna að greiða fyrir umræðunni með því að láta ekki bíða eftir mér.

Sem svar við andsvari hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur vil ég nefna að þær spurningar sem hún ber fram eru auðvitað þess eðlis að ég get ekki svarað þeim með neinni vissu. Ég spurði í ræðu minni nokkurra spurninga í þessum efnum vegna þess að ég hef velt fyrir mér hvernig standi á því að svo virðist sem ekki sé nokkurt svigrúm til að reyna að finna sameiginlega niðurstöðu með stjórnarandstöðunni í þessu máli. Það sem gert hefur verið hefur allt miðað að því að tillaga ráðherranna verði samþykkt óbreytt og það virðist ekkert mega hrófla við henni. Ég velti fyrir mér hvernig það rímar saman við það að einstakir þingmenn úr stjórnarflokkunum hafa fært ágæt rök fyrir annarri niðurstöðu en felst í tillögu stjórnarflokkanna og ég velti einfaldlega fyrir mér hvað þetta þýðir, hvað er hér að gerast.

Ég hef auðvitað ekki aðrar upplýsingar en hv. þm. Vigdís um hvað gerðist í ranni stjórnarflokkanna áður en málið kom fram á þingi en hins vegar er ljóst að það var lengi í fæðingu áður en það birtist í þinginu. Við minnumst þess að síðasta vetur, veturinn 2011–2012, var lengi beðið eftir að rammaáætlun kæmi inn í þingið. Verkefnisstjórn skilaði af sér um sumarið, þá hófst umsagnarferli sem stóð í 12 vikur. Að því loknu hefði maður ímyndað sér að það væri ekki mikil vinna eftir af hálfu ráðherranna en það liðu a.m.k. fjórir mánuðir ef ekki fimm áður en málið kom inn í (Forseti hringir.) þingið. Þá velti maður fyrir sér hvort hafi þurft að fara í mjög (Forseti hringir.) mikla málamiðlun innan stjórnarflokkanna.