141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði ekki heyrt þessa frétt sem hv. þingmaður vísar til varðandi upplýsingar um áform Evrópusambandsins í þessum efnum eða óskir um að komast í raforku héðan gegnum sæstreng. Það kemur kannski ekkert á óvart, en ég hafði ekki heyrt af þessu þannig að ég treysti mér ekki til að tjá mig um það núna. En það sem mér finnst hins vegar athyglisverðast í þessu máli er akkúrat þetta, hvernig á því stendur að ósveigjanleikinn er jafnmikill og raun ber vitni og hvað samningsviljinn í þessu máli hefur verið lítill af hálfu ríkisstjórnarflokkanna frá því að málið kom inn í þingið.

Við getum vísað til þess að það var meðvituð ákvörðun núna í haust að málið færi á forræði umhverfis- og samgöngunefndar en ekki atvinnuveganefndar eins og síðasta vetur. Hvaða ályktun eigum við að draga af því? Eigum við kannski að draga þá ályktun að ríkisstjórnarflokkarnir hafi talið að meiri hlutinn eins og hann var samansettur í umhverfis- og samgöngunefnd væri öðruvísi þenkjandi í þessum málum en meiri hlutinn í atvinnuveganefnd? Já, ég hygg að svo sé. Eigum við að draga einhverjar ályktanir af því sem gerðist þar áður að málið var flutt frá iðnaðarráðherra eða atvinnuvegaráðherra til umhverfisráðherra? Getur það skipt máli í þessu sambandi? Já, ég hygg að í því felist ákveðin pólitísk stefnumótun (Gripið fram í.) og bendi á í því sambandi að það er ekki einu sinni búið að breyta þeim lögum sem gera það að verkum að þetta mál á að flytjast af þeim ráðherra sem fer með málefni atvinnuveganna. Við erum með það mál til meðferðar á öðrum stað í þinginu, breyting á lögum um Stjórnarráðið, sem felur þá breytingu í sér. Svo mikill (Forseti hringir.) var ákafinn að koma þessu máli úr atvinnufarveginum yfir í umhverfisfarveginn.