141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og fyrir að koma inn á málið um útflutning á orku. Við höfum heyrt í umræðunni í kvöld spurningar um hvenær nóg er komið af virkjunarframkvæmdum o.s.frv. en menn hafa kannski ekki tekið umræðuna um hvort við eigum að hugsa bara um okkur sjálf eða hvort við eigum að hugsa hlutina á heimsvísu. Í þeirri rammaáætlun sem við ræðum nú erum við auðvitað að hugsa um Ísland, en þegar maður ræðir við þingmenn erlendra ríkja, sérstaklega þeirra sem tengjast landsvæðum þar sem ekki er nægilega mikið framboð af orku og þar sem menn óttast afleiðingar af hækkun sjávar þá horfa menn mjög til þess hve mikið hlutfall þeirrar raforku sem er framleidd hér og þeirra orkugjafa sem við notum er umhverfisvænt. Þá spyr maður: Hvenær verður krafan frá alþjóðasamfélaginu orðin sú að við Íslendingar nýtum auðlindir okkar meira en ráð er fyrir gert nú þegar eða verður það þannig, ef svo óheppilega vill til að við göngum í Evrópusambandið, að ráðin verði tekin af okkur varðandi orkuna og okkur einfaldlega gert að virkja meira? Hefur hv. þingmaður skoðun á því? Hefur hann tekið þátt í umræðu um þessi mál? Hvernig telur hv. þingmaður að best sé að vernda okkur Íslendinga fyrir því að orkuverð til heimila landsins margfaldist líkt og gerðist í Noregi?