141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Telur hv. þingmaður að það sé engin leið til þess að tryggja hagsmuni íslenskra neytenda og horfa um leið til þess að fara í útrás á þessu sviði? Hefur hv. þingmaður myndað sér einhverja skoðun á því? Ég heyri það á fyrra andsvari þingmannsins að hann hefur tekið þátt í umræðu um þessi mál.

Við Íslendingar eigum þessa auðlind. Það er sérstaða okkar að við eigum þá orku og auðvitað vill maður sjá að Íslendingar fái notið þess að fá ódýra raforku fyrir sig og sitt heimili og ég tala nú ekki um að íslensk fyrirtæki nái að hagnýta sér þá sérstöðu Íslands. Auðvitað er það draumastaðan.

En þar sem hv. þingmaður hefur tekið þátt í umræðum um þessi mál, hefur hann þá myndað sér skoðun á þessu og hefur hann einhverjar tillögur um hvað hægt er að gera í þessu máli?