141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þingmaður erum sammála um að við Íslendingar eigum hreina orku. Við erum líka sammála um að við eigum að nýta orkuna á sjálfbæran hátt og við eigum að nýta orkuna til atvinnuuppbyggingar. Ég er hins vegar ósammála þeim sem eru fylgjandi því að orkan verði flutt út um sæstreng, að orkan verði flutt út sem eins konar hrávara til Evrópu í gegnum sæstreng. Því er ég einfaldlega ósammála. Ég held að við getum markaðssett orkuna hér á landi fyrir fyrirtæki, bæði innlend sem erlend, sem vilja sækja hingað á þeirri forsendu að við eigum græna orku og þau vilji ráðast í atvinnuuppbyggingu á Íslandi þar sem þessi græna vistvæna orka er nýtt til atvinnuuppbyggingar.

Ég segi það aftur að veruleg hætta er á útflutningi ráðist menn í slíkar framkvæmdir, sæstreng á milli Íslands og Evrópu, og vissulega hefur maður heyrt umræður um að hægt sé að selja orkuna út þegar ekki eru álagstímar hér. Engu að síður, jafnvel þó að Norðmenn hafi talað um þetta, hefur þróunin orðið sú að orkuverð hefur hækkað í Noregi.

Ég held að mjög mikill þrýstingur mundi myndast á það að orkuverð til heimila á Íslandi verði líka hækkað og það er einfaldlega ekki sú þróun sem við viljum sjá. Við eigum áfram að geta tryggt hið lága orkuverð til heimila hér á landi og þess vegna hef ég verið andsnúinn öllum hugmyndum um sæstrengsframkvæmdir, en ég hef hins vegar verið fylgjandi því að við nýtum orkuna til atvinnuuppbyggingar á Íslandi og bjóðum fyrirtækjum, hvort sem er innlendum eða erlendum, að nýta þá orku sem við getum framleitt á sjálfbæran hátt til grænnar atvinnustarfsemi. (Gripið fram í: Við erum algjörlega sammála.)