141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er algerlega sjálfsagt að svara spurningum hv. þingmanns eins og hægt er. Ég verð að vísu að viðurkenna að ég þykist hafa heyrt þær áður. Mig minnir að þeim hafi þegar verið svarað af hálfu meiri hluta nefndarinnar. Ég vona að mig hafi ekki dreymt það en ég held að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hafi svarað einhverjum af þeim spurningum sem hér komu fram, m.a. spurningunni um að binda sig ekki í rammaáætlun við tiltekna orkutölu. Ég held að hún hafi svarað því vel. Mig minnir að hv. þingmaður sem talaði áðan hafi einmitt vitnað í það í persónulegu samtali við mig frammi á gangi, að það hafi verið gott svar frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, að rammaáætlun snerist ekki um orkuaflið heldur um náttúrugæðin. Það er auðvitað þannig að virkjun sem ekki gefur mikla orku getur skemmt umhverfið allverulega. Það er ástæðan til þess.

Því er hins vegar að svara, og það er kannski spurningin í þessu. Ég er ekki að reyna að vera með nein illindi. Spurningin er kannski sú hvort við höfum rætt hvaða tala kæmi til greina og svarið er nei, það höfum við ekki rætt. Við skiljum það eftir fyrir verkefnisstjórnina að kanna það og athuga hvort til er einhver slík tala eða hvort ætti kannski ekki að hafa neina tölu og meta virkjanir í umfangi þeirra og hugsanlegum áhrifum á umhverfi frekar en miða við einhverja sérstaka tölu vegna eðlis máls.

Fleiri spurningar hafði þingmaðurinn fram að færa. Ég næ ekki að svara þeim nema að það er rétt hjá hv. þingmanni að hvað varðar orkunýtingarkostina og verndarkostina eru þeir jafnsettir þótt þeir séu ekki í sama lið, og það hafði ég reyndar held ég bent hv. þingmanni á áður, að svo er.

Það er svo skilið eftir handa verkefnisstjórninni, við ætlum ekki að segja henni fyrir í smáatriðum, hvernig á að höndla þetta og hvað hún á að rannsaka. Það er eins með vindorkuna og sjávarföllin. (Forseti hringir.) Það er feikileg framþróun í þeim greinum. Vindorkan er náttúrlega komin miklu lengra en sjávarföllin en framþróun er þar líka. (Forseti hringir.) Það er því rétt að fylgjast mjög vel með því sem þar gerist.