141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir að eiga samræðu við mig um þessi mál. Mér finnst gott að talað sé um vindorkuna og sjávarfallaorkuna vegna þess að við höfum núna tækifæri til að sjá fyrir framtíðina í þessum málum. Vonandi mun tækninni fleygja það mikið fram að það verði góðir kostir fyrir okkur í orkumálum og þá er frábært að við verðum búin að læra af reynslunni og átta okkur á heildarmyndinni þegar farið er af stað. En ég held að það sé erfitt að ætla næstu verkefnisstjórn á næstu árum að meta til fullnustu þá virkjunarkosti sem mögulegir eru bæði í vindorku og sjávarfallaorku. Kannski er það vanmat hjá mér, kannski er tímabært að byrja að safna upplýsingum og gera einhvern grunn, en þetta eru alla vega gríðarlega spennandi kostir og vonandi verða þeir mögulegir í framtíðinni.

Ég átta mig á því að hv. þingmaður kemst ekki í þriðja andsvar við mig þó að það væri vissulega mjög áhugavert, en mig langar afskaplega að biðja um ef hv. þingmenn úr meiri hlutanum sem hér eru og ætla sér að koma í ræðustól áður en langt um líður að kanna hvort menn telji að fram komi lagabreytingartillaga um að þessi svokölluðu „buffer zone“ verði tekin inn í lögin og að leitast verði við að skilgreina hvað það þýðir.