141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[21:52]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta mál er að verða alltaf undarlegra og undarlegra eftir því sem við ræðum það meira því að sífellt koma fleiri upplýsingar um það. Þá er ég að vísa til upplýsinga sem koma frá Evrópuþinginu og ráðherraráði ESB þar sem hrósað er viðsnúningi Íslands í íslensku efnahagslífi. Hann er lofaður í hástert og staðan í aðildarviðræðum er sögð góð en þingið lýsir yfir áhyggjum yfir því hvort hægt verði að aflétta gjaldeyrishöftum enda sé slíkt mikilvægt skilyrði fyrir inngöngu í ESB. Báðar stofnanirnar fjalla á jákvæðan hátt um Ísland sem fánabera endurnýjanlegra orkugjafa og segist Evrópuþingið sannfært um að nánari samvinna á því sviði geti stuðlað að fjárfestingu og þannig haft jákvæð áhrif á efnahag og atvinnu á Íslandi og í ESB. Því hvetja þessar tvær stofnanir Evrópusambandsins til frekari athugunar á því að tengja raforkukerfi Íslands við meginland Evrópu í gegnum sæstreng. Það kom fram í frétt á eyjan.is í dag.

Þess vegna er mjög skrýtið að hér skuli vera lagt til raforkubann, að raforkuvirkjunarkostirnir séu teknir úr sambandi. Þá stöndum við kannski frammi fyrir hinu sanna, að Evrópusambandsmálið var mál Samfylkingarinnar sem Vinstri grænir settu sig ekki upp á móti og að rammaáætlunin er mál Vinstri grænna sem Samfylkingin setti sig ekki gegn. Þarna endurspeglast þau hrossakaup sem áttu sér stað þegar til þessarar ríkisstjórnar var stofnað.

Við verðum að setja málið á dagskrá rammaáætlunar. Ég hef farið yfir málin er varða sæstrenginn því að Landsvirkjun, ríkisfyrirtækið okkar sem er stærst á raforkumarkaði, hefur eytt tíma, orku og peningum í að kanna kosti þess og galla að leggja sæstreng héðan til Evrópu. Til að það verði að veruleika þarf að virkja meira. Bara það eitt verður næstum til þess að ég verði afhuga því að virkja hér með stórtækum hætti vegna þess að ég tel að við Íslendingar eigum að nota orku okkar hér innan lands og framleiða gæðavöru í stað þess að vera hrávöruframleiðandi fyrir Evrópusambandið.

Það kom fram á ársfundi Landsvirkjunar 13. apríl síðastliðinn að fyrirtækið sé talsvert skuldsettara en sambærileg fyrirtæki í nágrannalöndunum og það gæti hamlað félaginu að leita að meira lánsfé. Lokist erlendir fjármálamarkaðir þurfi íslenska ríkið að leggja Landsvirkjun til eigið fé. Þá kom einnig fram að handbært fé frá rekstri ætti að standa undir endurgreiðslu lána svo framarlega að ekki verði ráðist í umboðsmiklar fjárfestingar. Þess vegna spyr ég: Getur það verið að fjárhagsvandræði Landsvirkjunar eigi að leysa með lánsfé eða inngöngufé Evrópusambandsins? Hvað er verið að semja um á bak við tjöldin? Í Lissabon-sáttmálanum, sem er, eins og allir vita, einhvers konar stjórnarskrá Evrópusambandsins sem aðildarríki þurfa að gangast undir, segir:

Orkumál koma fyrir í 1. flokki sem fjallar um að flokkar og svið valdheimildar Evrópusambandsins sem það deilir með aðildarríkjunum.

Í 170. gr. 116. bálki er fjallað um samevrópskt netkerfi. Þar segir jafnframt að Evrópusambandið skuli stuðla að uppbyggingu og þróun grunnvirkja fyrir samevrópskt flutninga-, fjarskipta- og orkunet.

Í 2. tölulið þeirrar greinar segir:

„Aðgerðir sambandsins skulu miða að því, innan ramma opinna samkeppnismarkaða, að ýta undir samtengingu og rekstrarsamhæfi netkerfa aðildarríkjanna, svo og aðgang að slíkum netkerfum. Þær skulu einkum taka mið af nauðsyn þess að tengja eyjar, landlukt svæði og jaðarsvæði við miðlæg landsvæði sambandsins.“

Síðan er mjög eftirtektarvert að samkvæmt Lissabon-sáttmálanum er Evrópusambandinu veitt heimild til að styðja verkefni sem þjóna sameiginlegum hagsmunum aðildarríkjanna með lánatryggingum, vaxtaniðurgreiðslum eða fjármögnun.

Ég er búin með tíma minn og verð að fá að fara aftur á mælendaskrá til að útskýra það betur í þingræðu út á hvað það gengur. En þarna liggur hundurinn grafinn, þetta snýr allt að Evrópusambandinu.