141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á störfum þingsins og ég vil hvetja hv. stjórnarþingmenn til að velta því aðeins fyrir sér hvernig staðið hefur verið að málum á þessu kjörtímabili.

Nú er af mörgu að taka, til dæmis að nú á síðustu metrunum, á síðustu dögunum, eru að koma inn mjög mikilvæg frumvörp sem eru svo illa unnin að sjaldan hefur annað eins sést. Ég skal vekja athygli á einu, virðulegi forseti.

Gera á breytingar á vörugjöldum og markmiðin eru tvö. Annars vegar að ná lýðheilsumarkmiðum og hins vegar að einfalda kerfið. Í umsögnum þeirra aðila sem best þekkja til í þessum málum og koma að þeim kemur skýrt fram að þetta flækir málin og svo ýtir þetta undir, þ.e. ef neyslustýring virkar, neyslu á sykri, nánar tiltekið súkkulaði og karamellum, virðulegi forseti.

Það er líka þannig, virðulegi forseti, að það er orðin algjör regla að fyrirspurnum er ekki svarað hér og mál ekki leidd til lykta. Ég vek athygli á því að í síðasta mánuði sagði hæstv. forsætisráðherra að málefni Dróma væru fullkomin sorgarsaga og hún væri búin að vinna í því svo lengi að niðurstaða kæmi í næstu viku. Þetta var í nóvember.

Ég vek athygli á því að búið er að spyrjast fyrir um mál sem tengjast hagsmunum skattgreiðenda upp á tugmilljarða króna. Þá er ég að vísa í mál eins og t.d. SpKef og Byr. Virðulegi forseti. Það þykir fullkomlega sjálfsagt að svara ekki fyrirspurnum.

Virðulegi forseti. Okkur þingmönnum ber (Forseti hringir.) samkvæmt stjórnarskrá að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Nú er málum þannig fyrir komið að það er fullkomlega ómögulegt (Forseti hringir.) að sinna þeirri skyldu.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörk, sem eru tvær mínútur undir þessum lið.)