141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Í dag hefst í Brussel ríkjaráðstefna Evrópusambandsins þar sem meðal annars stendur til að opna nokkra kafla í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Við þekkjum öll þá sorgarsögu sem aðildarferlið er og aðspurður sagði hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon í gær að það væri komin stækkunarþreyta í Evrópusambandið. Meta ætti stöðuna eftir ríkjaráðstefnuna fram að kosningum og að staðan eftir kosningar væri eins og opin bók.

Ég er nokkuð sammála hæstv. ráðherra og þess vegna er ég ein af flutningsmönnum þingsályktunartillögu sem lögð var fram til kynningar í utanríkismálanefnd í morgun af meiri hluta utanríkismálanefndar, fulltrúum Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og hv. þm. Jóni Bjarnasyni, þar sem lagt er til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að gera þegar í stað hlé á viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu og hefja þær ekki að nýju nema að undangengnu samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við óskum eftir því að þessi tillaga verði tekin fyrir á næsta fundi nefndarinnar á fimmtudaginn og að hún fáist rædd á þingi að loknu jólaleyfi í janúar. Ég tel afar mikilvægt að umboð Alþingis sé skýrt hvað aðildarumsóknina varðar. Við þekkjum forsendubrestinn, hann er ítarlega útskýrður í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Ég hvet þingheim til að kynna sér tillöguna. Við munum ræða hana í nefndinni á fimmtudag og vonandi verður það til þess að þeir þingmenn, til að mynda Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem hafa verið andvígir umsókninni og (Forseti hringir.) talað með sama hætti og hæstv. ráðherra gerði í gær, greiði nú atkvæði eftir sinni bestu samvisku þegar þar að kemur.