141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er fyrst og fremst komin hingað upp til að fagna þeirri tillögu sem lögð var fyrir utanríkismálanefnd í morgun. Það væri óskandi að þingið gæti tekið hana hratt og fljótt til afgreiðslu. Þegar umsóknin var lögð inn til Evrópusambandsins að við Íslendingar yrðum umsóknarríki var talað um mikla hraðferð, eins og allir muna, og sagt að hægt væri að ljúka aðildarviðræðum á 18 mánuðum. Nú er komið í ljós að Evrópusambandið ætlar að fresta sjávarútvegskaflanum og landbúnaðarkaflanum fram eftir öllu ári 2013. Það verða því engin úrslit komin í þessar viðræður fyrir næstu alþingiskosningar sem fara fram hér á landi.

Það er því fagnaðarefni að kominn sé nýr meiri hluti í utanríkismálanefnd sem getur þokað þessum málum. Sú sem hér stendur hefur lagt fram margar tillögur um að fá þetta mál fyrir þingið, nú síðast var felld tillaga frá mér þar sem ég lagði til að málið yrði sent í þjóðaratkvæðagreiðslu um leið og kosið var um gervitillögur þær sem ríkisstjórnin lagði fram þann 20. október. Hún var felld í þinginu, líka af þingmönnum Vinstri grænna sem þó hafa aldrei viljað fara þá leið að ganga í Evrópusambandið.

Virðulegi forseti. Ég skora á forsætisnefnd þingsins að koma þessu máli sem fyrst á dagskrá eftir jólaleyfi. Málið er mjög brýnt vegna þess að Íslendingar geta ekki gengið til kosninga með það opið hvort halda eigi áfram þessu feigðarflan eða ekki. Það verða að vera komin úrslit í þetta mál fyrir kosningarnar svo að allir viti hvar þeir standa. Því er mér efst í huga þakklæti til þeirra þingmanna sem hafa nú myndað nýjan meiri hluta í utanríkismálanefnd fyrir (Forseti hringir.) það áræði sem þeir sýndu með þessu.