141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Markmið verndar- og nýtingaráætlunar er að tryggja að nýting landsvæða þar sem virkjunarkosti er að finna byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Á grundvelli þessara sjónarmiða er með rammaáætlun mótuð stefna um landsvæði þar sem virkjunarkosti er að finna og sagt til um hvort megi nýta svæðin til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þau eða rannsaka frekar.

Landsvæði og virkjunarkostir eru samkvæmt því flokkaðir í orkunýtingarflokk, verndarflokk eða biðflokk. Flokkun sú sem fram kemur í þingsályktunartillögunni sem hér er rædd byggist á skýrslu verkefnisstjórnar um gerð rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafls- og jarðhitasvæði, sem skipuð var af iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra 24. ágúst árið 2007. Verkefnisstjórnin skilaði skýrslu sinni til iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra 5. júlí 2011.

Í þingsályktunartillögunni eru 67 virkjunarkostir flokkaðir í samræmi við ákvæði laga nr. 48/2011. Í samræmi við þau lög voru 19. ágúst 2011 drög að þingsályktunartillögunni kynnt og send í opið tólf vikna umsagnar- og samráðsferli. Jafnframt fór í umsagnarferli umhverfismat á þingsályktunartillögunni sem unnið hafði verið í samræmi við ákvæði laga um umhverfismat áætlana. Með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fram komu í umsagnarferlinu voru breytingar gerðar. Aðeins var tekið tillit til þeirra gagna sem verkefnisstjórnin hafði ekki haft til skoðunar, samtals sex virkjunarkostir á tveimur svæðum. Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun, Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár og Skrokkölduvirkjun, Hágönguvirkjun 1 og 2 vestan Vatnajökuls eru færðar úr nýtingarflokki í biðflokk með vísan til nýrra upplýsinga og varúðarreglu umhverfisréttarins sem mælir fyrir um að náttúran njóti vafans ef ekki hefur verið sannað vísindalega að hún beri ekki skaða af framkvæmdum eða starfsemi sem um er að ræða. Við undirbúning og frágang þingsályktunartillögunnar var í einu og öllu fylgt ákvæði laga um verndar- og orkunýtingaráætlun.

Vegna þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað undanfarna daga á þinginu tel ég nauðsynlegt að rekja það ferli sem átti sér stað við frágang þingsályktunartillögunnar fyrir framlagningu hennar á síðasta þingi. Ég minni jafnframt á 5. kafla í áliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar þar sem farið er vandlega yfir verkþættina sex í rammaáætlunarferlinu sem nú er að ljúka.

Þann 5. júlí 2011 skilaði verkefnisstjórn um gerð rammaáætlunar lokaskýrslu sinni til ráðherra. Skýrslan ber heitið Niðurstöður 2. áfanga rammaáætlunar. Mikilvægt er að hafa í huga að í skýrslunni er ekki að finna flokkun þeirra virkjunarkosta sem verkefnisstjórnin hafði til skoðunar, þ.e. virkjunarkostirnir eru ekki flokkaðir í orkunýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk. Niðurstöður verkefnisstjórnar voru ekki settar fram í formi þingsályktunartillögu og því ekki mögulegt að taka þær til afgreiðslu samkvæmt lögum um rammaáætlun. Á grundvelli upplýsinga og tillagna í skýrslu verkefnisstjórnar var því í framhaldinu farið í þá vegferð með formanni verkefnisstjórnar, formönnum þeirra fjögurra faghópa sem stóðu að skýrslunni og lögfræðingum úr iðnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti í svokölluðum formannahópi, að koma tillögum verkefnisstjórnar í þingtækan búning í formi þingsályktunartillögu um verndar- og orkunýtingaráætlun þar sem Alþingi ályktar um flokkun virkjunarkosta í orkunýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk.

Þeirri vinnu lauk í ágúst árið 2011 og drög að þingsályktunartillögunni kynnt og send í hið lögbundna umsagnarferli. Að loknu umsagnarferlinu var ítarlega farið í gegnum 225 umsagnir sem bárust og lagt mat á hvort þar væri að finna einhverjar nýjar upplýsingar sem taka bæri lögum samkvæmt tillit til við endanlegan frágang. Niðurstaðan var að svo væri og því gerðar nauðsynlegar breytingar á þeim drögum að þingsályktunartillögu sem lágu fyrir og skjalið klárað fyrir framlagningu á Alþingi.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að allt ferlið er í samræmi við lögin um rammaáætlun og þá aðferðafræði sem þar er lagt upp með og farið var rækilega í gegnum við yfirferð iðnaðarnefndar og umhverfisnefndar á því frumvarpi sem samþykkt var samhljóða á Alþingi og varð að lögum nr. 48/2011.

Enn fremur má nefna að verklag þetta er í fullu samræmi við ákvæði Árósasamningsins sem innleiddur var í íslenskan landsrétt í lok síðasta árs og kveður m.a. á um aukna þátttöku almennings í ákvörðunartöku í umhverfismálum. Ég leyfi mér því að segja, virðulegi forseti, að ef öðru er haldið fram er farið með rangt mál.