141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:51]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Virðulegur forseti. Í þessu máli birtist vilji stjórnmálamanna til að takast á við það sem er að í íslensku samfélagi, að takast á við stórt deilumál, binda það í áætlun, komast að samkomulagi, málamiðlun, svo við getum hætt að rífast. En í þessu máli og meðferð þess í þinginu birtist líka það sem er að í íslenskri pólitík. Það er algjört umburðarleysi gagnvart skoðunum annarra, áralöng átök sem valda því að stjórnarandstaðan fer í málþóf og gerir það meðal annars með því fororði að stjórnarmeirihlutinn núverandi hafi á sínum tíma stundað nákvæmlega eins vinnubrögð.

Það er ástæðan fyrir því að fjöldi fólks hefur misst trúna á stjórnmálakerfinu eins og það er í dag og hefur ákveðið að ganga til liðs við ný öfl, nýja flokka eins og Bjarta framtíð þar sem saman koma fyrrverandi framsóknarmenn, fyrrverandi samfylkingarmenn, fyrrverandi sjálfstæðismenn, fyrrverandi vinstri grænir og ákveða að reyna með hugarfarsbreytingu að nálgast viðfangsefnið með öðrum hætti.

Og hvernig hefði Björt framtíð nálgast það mál sem hér er til umfjöllunar?

Frá sjónarhóli náttúrunnar fyrst, vil ég segja, vegna þess að Björt framtíð er grænt stjórnmálaafl en líka með hófsemi og virðingu fyrir sjónarmiðum andstæðinga sinna. Með því að hlusta á það sem talsmenn annarra sjónarmiða segja getum við náð árangri, með því að reyna að nálgast hvort annað. Vegna þess að við búum saman hér á þessu landi getum við bundið erfið mál í áætlun og hætt að rífast. (Gripið fram í.)

En í þeirri umfjöllun sem verið hefur í þinginu á síðustu dögum er svo augljóst að það er enginn að hlusta, allir að tala. Það er það sem er að. Við þurfum að komast út úr því ferli og nálgast það með öðrum hætti og gera áætlanir til langs tíma sem standast, horfa á arðsemina sem skapast, ekki fara í Hellisheiðarvirkjun að nýju, ekki fara í Kárahnjúkavirkjun að nýju, það risavaxna mál sem sundraði þjóðinni og skapaði arðsemi upp á 3,5%. Það er algerlega fráleitt, við verðum að horfa í rökin og vera tilbúin að fara eftir þeim.

Ég fagna þeirri niðurstöðu sem fyrir liggur. Ég mundi auðvitað vilja að það væru fleiri virkjunarkostir og virkjunarhugmyndir í vernd og bið, en þetta er málamiðlun og á það verðum við að fallast. Við verðum að sætta okkur við það vegna þess að þannig getum við hætt að rífast.