141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Í þessu máli hefur undanfarna daga verið talað mikið um sátt og menn hafa jafnvel stillt dæminu þannig upp að ekki sé nein sátt nema hver stjórnmálaflokkur, jafnvel hver alþingismaður, hafi neitunarvald um það hvernig sáttin á að líta út en þó einkum þeir sem eru í minni hluta, þeir sem eru í stjórnarandstöðu, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn. Þannig er lýðræðið því miður ekki, það er bara þannig, og reyndar var aldrei tilgangurinn með rammaáætlun að skapa einhverja allsherjarsátt um hvern virkjunarkost eða hvert landsvæði í vernd og nýtingu. Við getum ekki skapað slíka sátt, það er eðlilegt að um það séu deildar meiningar, jafnvel eftir að öll fagleg og pólitísk sjónarmið hafa komið fram.

Mikilsverðasti árangurinn núna felst í þeirri samstöðu um leikreglur sem rammaáætlunin getur skapað og ég held að hún eigi eftir að skapa á næstu vikum, mánuðum og jafnvel árum og áratugum. Það er merkilegt í því tilliti að átök um það mál á þinginu hafa breyst frá því að það hófst. Miklu meiri ágreiningur var hér í upphafi þegar sanntrúaðir stóriðjumenn á borð við hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Tryggva Þór Herbertsson, sem vantar báða í salinn, hörmuðu til dæmis virkjun við Þjórsárver, Norðlingaölduveitu, töldu algjörlega óþarft að reyna aðra nýtingu á Torfajökulssvæðinu en langa röð af virkjunum, vildu fá að virkja í Gjástykki, Kerlingarfjöllum, á Ölkelduhálsi, í Grendal, Innstadal o.s.frv.

Mikil áhersla er líka náttúruverndarmegin og ég tek undir hana á náttúrusvæðum, t.d. á Reykjanesskaga sem ég hef áhyggjur af, en þrátt fyrir það hefur ferlið í nefndum þingsins, í umræðu í salnum, að minnsta kosti í fyrra skiptið, í umræðu í samfélaginu, með hina faglegu undirstöðu og hin breiðu pólitísku rök, leitt til þess að átökin í þessu leiðinlega málþófi undanfarna daga hafa staðið um sex af 67 kostum, um tvisvar sinnum þrjá kosti, í tillögum ráðherranna, og raunar eiginlega bara um tvo því að allir eru nú sammála um að Urriðafoss eigi að minnsta kosti að fara í bið, ef ekki bara beint í vernd. Engin sérstök umræða hefur verið hér um Hágöngur og Skrokköldu þannig að hinar miklu deilur á þinginu standa um tvær virkjanir. Í þeim tilvikum er klárt að fyrstu vísbendingar um afdrif eiga að koma fram snemma ársins 2014.

Tvær virkjanir í um það bil tvö ár, það er það sem menn hafa verið að þenja sig út af hér.

En þrátt fyrir þennan hávaða og þrátt fyrir hið óvenjulega illvíga málþóf og þrátt fyrir hróp og köll ýmissa forkólfa, þar sem rammaáætlun er reyndar blandað í óskylda hluti, er að nást samstaða í samfélaginu um leikreglurnar.

Hér hafa vissulega fallið óvarleg ummæli um kúvendingu eftir kosningar ef menn komast í þá stöðu. Ég bið menn að stilla orðum sínum í hóf í því efni og hef vakið athygli á því að hótanir hafa þann galla að menn kunna að þurfa að standa við þær. Ég tek líka eftir því að forustumenn flokkanna tveggja sem einkum hafa beitt sér gegn málinu hafa ekki verið með yfirlýsingar af þessu tagi, þeir hafa stillt sig um slíkar yfirlýsingar. Ég met það við þá.

Ég hef sjálfur enga trú á því, ég held að það sé ekki heilladrjúgt, það væri í andstöðu við hagsmuni nánast allra sem að þessu koma, að rífa upp rammaáætlunarferlið með þessum hætti og ég held að þegar hinir óábyrgu stjórnarandstæðingar verða einhvern tímann í fjarlægri framtíð að ábyrgum stjórnmálamönnum við stjórnvölinn láti þeir sér ekki detta það í hug.

Það er samstaða um leikreglur en þetta táknar líka töluverðan áfanga í sögu og sambúð lands og þjóðar. Einmitt á sama tíma og stóriðjuskeiðinu í tækni- og atvinnusögu Íslendinga er að ljúka þá tökum við fleiri landsvæði en nokkru sinni fyrr til verndarnýtingar.

Ég vil að lokum, sem framsögumaður málsins, þakka fyrir umræðuna sem farið hefur fram, að ég vona, af fullri virðingu fyrir málefninu. Ég þakka nefndarmönnum í umhverfis- og samgöngunefnd og líka í atvinnuveganefnd fyrir samvinnuna í (Forseti hringir.) blíðu og stríðu, og þakka stuðningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu þétta samstöðu um að koma þessu mikla framfaramáli í höfn. Það tekst okkur hinn 14. janúar næstkomandi í þágu landsins (Forseti hringir.) og í þágu þjóðarinnar.