141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar vegna fjárlaga 2013.

Nefndin hefur fjallað áfram um frumvarpið frá því að 2. umr. fór fram dagana 29.–30. nóvember og síðan 3.–6. desember. Nefndin hefur haldið fjóra fundi um ýmis fjárhagsmál sem hafa verið tekin fyrir, m.a. farið ítarlega yfir stöðu Íbúðalánasjóðs.

Þær breytingartillögur sem nefndin gerir á milli umræðna nema alls um 3.295 milljónum til hækkunar á sundurliðun 2, þ.e. fjármálum ríkisaðila í A-hluta. Halli ríkissjóðs á A-hluta verður því 2.995 milljónir, þ.e. tæpum 200 millj. kr. meiri en gert var ráð fyrir í frumvarpinu sjálfu. Heildartekjur eru því áætlaðar um 580 milljarðar kr. og heildarútgjöld 583 milljarðar kr.

Í upphaflegri fjárfestingaráætlun kom fram að unnið væri að áætlun um byggingu nýs Landspítala í samræmi við lög nr. 64/2010 þar sem gert er ráð fyrir að allar fasteignir framkvæmdarinnar séu teknar á leigu til langs tíma. Þessi áform hafa nú breyst. Í sameiginlegu minnisblaði fjármála- og efnahagsráðherra og velferðarráðherra, sem ríkisstjórnin samþykkti þann 30. nóvember sl., er lagt til að um hefðbundna opinbera framkvæmd verði að ræða. Ráðherrarnir leggja til að undirbúið verði frumvarp um breytingar á umræddum lögum og það verði lagt fram á Alþingi í janúar. Ekki eru gerðar tillögur um gjaldaheimildir núna, en við frumvarpsgerðina verði jafnframt athugað hvort finna megi svigrúm í langtímaáætlun um ríkisfjármál á næstu árum með það að markmiði að hefja framkvæmdir við stærstu verkþættina sem opinbera ríkisframkvæmd. Við þá skoðun verði lögð áhersla á að halda jöfnuði í ríkisfjármálum, auk þess sem tekið verði tillit til hagræðingarinnar og hagrænna áhrifa framkvæmdanna.

Í samræmi við niðurstöðu þeirrar skoðunar verði gerð tillaga að því hvernig megi áfangaskipta og forgangsraða mikilvægustu verkþáttunum með það að markmiði að þeir nýtist spítalanum sem fyrst. Verði frumvarpið samþykkt og að öðrum skilyrðum uppfylltum verður mögulegt að auglýsa þá þegar opinber útboð framkvæmdanna með hefðbundnum fyrirvara um samþykki Alþingis við samningsgerðina og fjárheimildir. Í minnisblaðinu kemur einnig fram að talið sé að innlendur verktakamarkaður hafi varla burði til að fjármagna stærstu verkþættina og bera á þeim fjárhagslega ábyrgð á grundvelli langtímaleigusamnings, en eitt frumskilyrði fyrir leiguleiðinni er að áhættan af kostnaði við byggingu og rekstur sé hjá þeim einkaaðila sem byggir og annast rekstur húsnæðisins. Hins vegar eru tvö minnstu húsin, sjúkrahótelið og skrifstofu- og bílastæðahúsið, af þeirri stærðargráðu að þau gætu rúmast innan leiguleiðar og samkvæmt núgildandi lögum, nr. 64/2010, er nýjum Landspítala ohf. heimilt að bjóða þegar út byggingarnar með fyrirvara um samþykki Alþingis á leigusamningunum.

Frú forseti. Ég mun nú gera grein fyrir helstu breytingum sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að gerðar verði á fjárlagafrumvarpinu frá 2. umr.

Meiri hlutinn gerir tillögu um 144 millj. kr. tímabundið framlag vegna kostnaðar í tengslum við alþingiskosningar vorið 2013. Þar af eru 109 millj. kr. vegna biðlauna og annarra greiðslna til þingmanna sem hætta á þingi eftir kosningar. Önnur áætluð útgjöld sem fylgja starfslokum þingmanna og móttöku nýrra þingmanna eru áætluð 35 millj. kr.

Gerð er tillaga um 25 millj. kr. tímabundna hækkun á framlagi til alþjóðasamstarfs Alþingis, að fjárveiting til alþjóðasamstarfs verði sú sama og í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár, 8 millj. kr. framlag til að halda árshlutafund Norðurlandaráðs í Reykjavík á árinu 2013 og aðrar 8 millj. kr. til að halda smáríkjaráðstefnu á Íslandi í lok ágúst 2013 en aðildarríkin hafa skipst á um að halda þá ráðstefnu árlega síðan 2006 og er nú komið að Íslandi.

Gerð er tillaga um 40 millj. kr. tímabundið framlag til Evrópuvefsins á Vísindavef Háskóla Íslands sem sér um rekstur vefsíðunnar sem er upplýsingaveita um Evrópusambandið og Evrópumál.

Meiri hlutinn gerir sömuleiðis tillögu um 10 millj. kr. tímabundið framlag til tækjakaupa vegna öryggismála þingsins.

Sömuleiðis er gerð tillaga um 17 millj. kr. tímabundið framlag til að ljúka frágangi á Skúlahúsi og 30 millj. kr. tímabundið framlag til framkvæmda við Þórshamar, m.a. til að bæta aðgengi fatlaðra.

Meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögu um 103 millj. kr. tímabundið framlag til rannsóknarnefnda Alþingis. Framlaginu er ætlað að mæta lokauppgjöri vegna tveggja nefnda og upphafskostnaði vegna þeirrar þriðju. Rannsóknarnefndir um Íbúðalánasjóð og um sparisjóðina munu ljúka störfum á fyrri hluta ársins 2013, en Alþingi hefur að auki samþykkt nýverið að hefja rannsókn á einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans.

Gerð er tillaga af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar um 20 millj. kr. tímabundna hækkun á framlagi til umboðsmanns Alþingis vegna málafjölda og 44 millj. kr. tímabundna hækkun á framlagi til Ríkisendurskoðunar til að halda því sem næst óbreyttri starfsemi milli ára.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að veitt verði 39 millj. kr. tímabundið framlag í eitt ár til Háskólans á Hólum. Tillagan miðast við að fjármögnun náms á háskólastigi við skólann verði nú metin á forsendum reiknilíkans háskóla. Uppsafnaður rekstrarhalli skólans nam 134 millj. kr. í árslok 2011 og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er áætlað að í ár muni 64 millj. kr. bætast við uppsafnaðan halla og reikna má með að álíka halli verði á rekstri skólans á árinu 2013 miðað við óbreytt umfang og fjölda nemenda. Framlagið sem hér er lagt til er bundið því skilyrði að skólinn hagræði í starfsemi sinni og að öðru leyti til að bregðast við þessari stöðu.

Starfshópur á vegum fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra yfirfer nú málefni Hólaskóla og er hópnum falið að skila tillögu til ráðherra eigi síðar en í mars 2013. Þar á að horfa sérstaklega til þess með hvaða hætti rekstur skólans verði til framtíðar litið og hvort það sé kostur að skólinn sameinist öðrum háskólum eða verði rekinn áfram með óbreyttu sniði.

Einnig má nefna að nýverið skipaði mennta- og menningarmálaráðherra nefnd að tillögu allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis sem ætlað er að gera úttekt á hagkvæmni samstarfs eða sameiningarkosta háskóla.

Þá er til skoðunar að fasteignir ríkissjóðs taki við umsjón með einhverjum fasteignanna á svæðinu og annist í framhaldi af því um samninga við Sveitarfélagið Skagafjörð um yfirtöku skipulagsmála á Hólum og aðrar skyldur sveitarfélagsins gagnvart þéttbýlinu á Hólum. Þá er áformað að skipaður verði starfshópur til að fara yfir staðarhald í tengslum við rekstur skólans en kostnaður við það hefur numið um 20 millj. kr. á ári.

Lagt er til af hálfu meiri hlutans að 40 millj. kr. tímabundnu framlagi verði í eitt ár varið til Háskólans á Bifröst. Annars vegar er þar um að ræða 10 millj. kr. vegna uppsafnaðra skammtímaskulda sem bregðast verður við og hins vegar 30 millj. kr. svo að halda megi úti eðlilegu skólahaldi í vetur og fram á vor 2013. Háskólinn á Bifröst á við verulegan vanda að stríða, bæði fjárhagslega sem og vegna verulegrar fækkunar nemenda. Vegna fækkunar nemenda við skólann getur aukning í ríkisframlagi til hans ekki byggst á núverandi fyrirkomulagi á fjármögnun háskóla samkvæmt forsendum í reiknilíkani þrátt fyrir lagaákvæði um fjárframlög til háskóla og ákvæði þjónustusamnings. Þessi tillaga er því ætluð til að leysa bráðavanda skólans á árinu 2013 en fyrir liggur að skuldastaða skólans er afar erfið. Skilyrði þessarar fyrirgreiðslu er að Háskólinn á Bifröst leggi fram trúverðuga áætlun um að hann geti tryggt nægilegan fjölda nemenda til að skólinn verði starfhæfur, t.d. með sameiningu við aðrar háskólastofnanir. Gera má ráð fyrir að gerðar verði tillögur um framhald og fyrirkomulag háskólahalds á Bifröst af hálfu fyrrnefndrar lögskipaðrar nefndar um úttekt á háskólastiginu.

Meiri hlutinn gerir tillögu um 70 millj. kr. hækkun á framlagi til kennsluþáttar Háskóla Íslands. Framlaginu er ætlað að koma til móts við þann fjölda nemenda sem ekki er að fullu greitt fyrir samkvæmt forsendum í frumvarpinu. Áætlað er að ef fjárveitingin tæki að fullu tillit til reiknaðra áhrifa breytinga á fjölda nemenda samkvæmt reiknilíkaninu leiddi það til 154 millj. kr. hækkunar frá frumvarpinu eins og það stendur eftir 2. umr.

Meiri hlutinn gerir tillögu um 43,5 millj. kr. tímabundna hækkun framlags til Háskólans í Reykjavík til þess að koma til móts við fjölgun nemenda í skólanum milli ára. Háskólinn í Reykjavík fékk 150 millj. kr. aukafjárveitingu með fjáraukalögum árið 2010, einkum til að mæta auknum húsnæðiskostnaði í kjölfar flutnings í nýtt húsnæði. Fjárhæðin samsvarar framlagi fyrir því sem næst 160 ársnemendum og var miðað við að skólinn skyldi skila þeim á næstu árum með því að nemendur yrðu tímabundið umfram forsendur fjárlaga. Með framangreindri tillögu meiri hlutans er þeim áformum því frestað um eitt ár og gert ráð fyrir að forsendur um nemendafjölda í samningi við skólann verði lagaðar að framangreindum breytingum.

Meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögu um 30 millj. kr. verði veittar til Háskólans á Akureyri vegna kostnaðaraukningar við rannsóknarmissiri og til styrkingar á stjórnsýslu og stoðþjónustu.

Sömuleiðis er gerð tillaga um 10 millj. kr. tímabundna hækkun til að koma til móts við rekstrarvanda Landbúnaðarháskóla Íslands.

Meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögu um 30 millj. kr. framlag vegna bóklegs flugnáms og jafnframt að námið verði vistað innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Vegna mikilvægis flugs fyrir Íslendinga og sjónarmiða um jafnræði til náms hafa innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra ákveðið að skoða hvernig flugtengt nám verði tekið inn í menntastefnu Íslands og styrkt eins og annað starfsgreinanám. Fjárheimildin er vistuð á safnlið þar til gengið hefur verið frá samningum um nánari útfærslu styrkveitingarinnar.

Gerð er tillaga um tímabundið framlag að fjárhæð 400 millj. kr. til að setja upp sýningu í leiguhúsnæði á vegum Náttúruminjasafns Íslands. Áætlað er að heildarkostnaður verði um 500 millj. kr. en að ekki falli meira en 400 milljónir til á árinu 2013. Um er að ræða eitt af verkefnum í fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013–2015 sem kynnt hefur verið. Verkefnin verða fjármögnuð annars vegar með sérstakri tekjuöflun af veiðigjaldi á auðlindaarð sjávarútvegsins og hins vegar með tekjum af arðgreiðslum og söluhagnaði af eignasölu. Í tillögunni felst einnig leiðrétting á því að við afturköllun tillögu við 2. umr. varð fjármögnun liðarins með greiðslum úr ríkissjóði hærri en ætlunin var.

Meiri hluti fjárlaganefndar gerir tillögu um 200 millj. kr. tímabundið framlag til að styrkja einstök lögregluembætti og draga þar með úr fækkun lögreglumanna. Innanríkisráðuneytinu er falið að skipta fjárhæðinni á embættin og byggja skiptinguna á rekstraráætlun næsta árs.

Meiri hlutinn gerir tillögu um 100 millj. kr. hækkun fjárveitingar til Landhelgisgæslu Íslands til að tryggja rekstrarforsendur fyrir starfsemi Gæslunnar. Áætlað er að sértekjur stofnunarinnar muni dragast saman um allt að 310 millj. kr. á árinu 2013 vegna niðurskurðar verkefna erlendis en fyrir liggur að ekki verður um frekari sérverkefni að ræða á næsta ári sökum efnahagssamdráttar í Evrópu. Stofnunin hefur komist hjá þeim samdrætti í starfsemi á undanförnum árum sem aðhaldskröfur hafa gert ráð fyrir með því að leigja út búnað og áhafnir til þessara verkefna. Þar sem þeim fer brátt að ljúka mun Landhelgisgæslan þurfa að draga úr starfsemi til að halda útgjöldum innan fjárheimilda. Með þessu móti, en þó einnig með því að hagræða í þyrlurekstri fyrir um 30 millj. kr., verður stofnuninni kleift að halda fullnægjandi leitar- og björgunargetu þyrlusveitarinnar.

Gerð er tillaga af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar um 75 millj. kr. tímabundið framlag til innanlandsflugs. Eldsneytiskostnaður og ýmis annar erlendur kostnaður hefur hækkað mun meira en samningsbundnar hækkanir, og rekstrarhalli á flugleiðum nemur um 45 millj. kr. Komið er að því að bjóða út stuðning við innanlandsflug á næsta ári og líklegt er að niðurstaðan leiði til hækkunar framlaga miðað við núverandi samninga.

Gerð er tillaga um 45 millj. kr. hækkun til þjóðkirkjunnar og 7 millj. kr. hækkun til annarra trúfélaga. Að undanförnu hafa forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og innanríkisráðuneyti haft til skoðunar aðhaldskröfur sem gerðar hafa verið á árunum 2009–2012 til framlaga vegna sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga með hliðsjón af aðhaldskröfum sem gerðar hafa verið á öðrum sviðum, svo sem vegna framlaga til reksturs sjálfrar þjóðkirkjunnar samkvæmt samningi á grundvelli svonefnds kirkjujarðasamkomulags.

Engin aðhaldskrafa er gerð vegna sókna og trúfélaga í fjárlagafrumvarpinu. Aðhaldskröfur vegna rekstrarframlags til þjóðkirkjunnar hafa á þessu tímabili verið áþekkar og til almennra stjórnsýslustofnana ríkisins. Hins vegar voru þær ákveðnar nokkru hærri vegna framlaga til sókna og trúfélaga í ljósi þess að þau framlög höfðu vaxið mun örar á árunum fyrir efnahagsáfallið haustið 2008 en til almennra ríkisstofnana.

Eftir þessa skoðun ráðuneyta og samanburð málaflokka hefur verið ákveðið að fallast á að leggja til að greidd verði tímabundin viðbót við framlög vegna sókna og trúfélaga umfram það sem greitt hefur verið samkvæmt forsendum í fjárlagafrumvarpinu og þar með samkvæmt því einingaverði fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum vegna ársins 2013. Þessi tímabundna viðbót er ætluð til að vega á móti skerðingum fyrri ára umfram þær sem verið hafa í rekstrarframlagi til þjóðkirkjunnar og er ráðgert að einnig verði greidd viðbótarframlög af sömu ástæðum árin 2014 og 2015, en þau falli að því loknu niður. Gert er ráð fyrir að viðbótarframlaginu verði skipt niður á einstakar sóknir sem álag í hlutfalli við reiknað grunnframlag þeirra samkvæmt lögum um sóknargjöld og í samræmi við viðeigandi ákvæði frumvarps um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Forsenda fyrir ákvörðun um viðbótarframlagið er að fram fari endurskoðun á heildarfyrirkomulagi á fjárhagslegum samskiptum ríkisins, þjóðkirkjunnar, safnaða hennar og annarra trúfélaga. Í því felist bæði endurskoðun á samningi ríkisins og þjóðkirkjunnar á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins frá 10. janúar 1997 og á lögboðnum framlögum til sókna og trúfélaga og sjóða kirkjunnar. Endurskoðuninni er ætlað að miða að því að endurnýja og einfalda viðmið fyrir fjármögnun þessara aðila og samhliða því að tryggja betur fjárhagslegt sjálfstæði kirkjunnar og sveigjanleika í starfsemi hennar til frambúðar. Einnig byggist tillagan á þeirri forsendu að aðhaldskröfur sem þjóðkirkjan hefur fallist á með viðaukum við fyrrnefnda samninga haldi gildi sínu, þar með talið árið 2013.

Í þessu sambandi er rétt að nefna að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þjóðkirkjan fái launa- og verðlagshækkanir á sama hátt og almennar ríkisstofnanir. Einnig er gert ráð fyrir að framlög vegna sókna hækki miðað við spá um almennar verðlagshækkanir milli ára.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að 190 millj. kr. verði veittar til Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna styrkja til fiskvinnslustöðva til greiðslu launa vegna hráefnisskorts. Í forsendum frumvarpsins var gert ráð fyrir því að lög um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs til fiskvinnslustöðva yrðu felld úr gildi frá og með næstu áramótum og því var ekki gert ráð fyrir neinni fjárheimild á þetta viðfangsefni í frumvarpinu.

Áætluð útgjöld í ár á þessu viðfangsefni eru 350 millj. kr. og því var reiknað með að þessi aðgerð mundi leiða til 350 millj. kr. lækkunar á útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs og er það ein af sértækum aðhaldsráðstöfunum í fjárlagafrumvarpinu. Nú er hins vegar áformað að leggja fram stjórnarfrumvarp um breytingar á lögum sem þrengja ýmis skilyrði fyrir greiðslum til fiskvinnslufyrirtækja og er áætlað að af þeim sökum lækki árleg útgjöld varanlega um 100 millj. kr. miðað við áætluð útgjöld 2012. Því til viðbótar er reiknað með 60 millj. kr. tímabundinni lækkun útgjalda á árinu 2013 vegna fjölgunar ársverka í fiskvinnslu og aukins eftirlits með greiðslum til fiskvinnslustöðva.

Gerð er tillaga um að 445 millj. kr. fjárheimild verði flutt milli viðfangsefna Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna áforma um að leggja fram stjórnarfrumvarp vegna brottfalls fjórða árs í greiðslu atvinnuleysisbóta.

Meiri hlutinn gerir tillögu um 28 millj. kr. tímabundna hækkun til Umhverfisstofnunar vegna áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Lögð er áhersla á að tryggja eftirfylgni og framkvæmd verndar- og orkunýtingaráætlunarinnar með undirbúningi og framkvæmd friðlýsinga á verndarsvæðum áætlunarinnar.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til eftirfarandi breytingar á 6. gr. fjárlagafrumvarpsins:

1. Ráðherra fái heimild til að ganga til samninga við rekstraraðila Tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu og Reykjavíkurborg um endurskoðun á framlagi ríkisins og borgar á grundvelli fyrirliggjandi verkefnissamnings um rekstur hússins. Í kjölfar stöðumats sem unnið var af endurskoðunarskrifstofu í fyrravor um rekstrarstöðu Hörpu var farið fram á það af hálfu eigenda að unnið yrði að gerð áætlunar um rekstur félagsins til næstu fimm ára. Nú liggur fyrir áætlun um rekstur hússins sem unninn hefur verið af hálfu félagsins í samstarfi við þá ráðgjafa sem áður höfðu unnið fyrrnefnda greiningu að beiðni eigenda. Langtímaáætlunin byggist á markmiðssetningu og framtíðarsýn félagsins þar sem sett er fram aðgerðaáætlun fyrir hvert svið rekstursins sem miðar að því að auka skilvirkni, draga úr kostnaði og auka tekjur. Þrátt fyrir að áætlunin sé sett fram á frekar varfærnum forsendum gefur niðurstaða hennar að mörgu leyti tilefni til ákveðinnar bjartsýni um framtíðarrekstur Hörpu. Gert er ráð fyrir að takist að bæta rekstrarafkomuna um 150 millj. kr. á næsta ári og 250 millj. kr. á árunum 2013–2016. Fasteignagjöld Hörpu hafa verið rekstrinum þungur baggi en heildargjöldin vegna þeirra nema um 336 millj. kr. á ári.

Tekin hefur verið ákvörðun á grundvelli ítarlegs lögfræðiálits að vísa ágreiningi um grundvöll laganna til dómstóla og eru vonir bundnar við að fjárhæðin muni að fenginni úrlausn þeirra lækka verulega. Miðað við viðburðadagskrá, raunhæfan gestafjölda og eðlilegar tekjur af ráðstefnuhlutanum á næsta ári er gert ráð fyrir að viðvarandi fjárþörf vegna rekstrarins geti orðið um 155 millj. kr., jafnvel þótt framangreind lækkun á fasteignagjöldum gangi eftir að teknu tilliti til þess að samningar náist við leigutaka hússins, þar á meðal Sinfóníuna sem fái þá hækkun bætta. Verið er að vinna greiningu á því hvernig brúa megi þetta bil. Horft hefur verði til þess að kostnaðarhlutföllum eigenda samkvæmt fyrri samningi verði ekki raskað. Meðal annars er litið til þess að gætt verði sanngirni varðandi kostnaðarhlutdeild núverandi leigutaka í rekstri hússins.

Með yfirtöku ríkis og borgar í félaginu Portus ehf. í gegnum félag sitt Austurhöfn á árinu 2009 og sameiginlegri ákvörðun þessara aðila að halda verkefninu áfram hafa ríki og borg í raun tekið á sig eigendaskyldur gagnvart félaginu og verkefnum þess. Því er talið heppilegast að reyna að mæta þessari rekstrarstöðu með samkomulagi milli eigenda og Hörpu á grundvelli fyrirliggjandi verkefnissamnings um rekstur tónlistar- og ráðstefnuhússins sem ramma inn þennan viðbótarkostnað. Eftir er að semja um kostnaðarskiptingu vegna 155 millj. kr. viðvarandi fjárþarfar Hörpu og gera má ráð fyrir því að höfð verði hliðsjón af eignarhluta ríkisins og borgar í verkefninu auk annarra atriða.

2. Gerð er tillaga um að breyta 400 millj. kr. skammtímaláni ríkissjóðs til Tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu í eigið fé. Í lok árs 2011 var gengið frá 730 millj. kr. skammtímaláni til Tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu vegna samdráttar á samningum um langtímafjármögnun. Lánveitendur voru eigendur hússins í sömu hlutföllum og eign þeirra í húsinu, þ.e. ríkið með 54% og Reykjavíkurborg með 46%.

Þegar Harpa var yfirtekin af ríki og borg árið 2009 voru ekki gerðar ráðstafanir til að auka eigið fé fyrirtækisins þannig að félagið hefði nægilegt svigrúm til að takast á við sveiflur í rekstri eins og eðlilegt má teljast við slíkan rekstur.

Lagt er til að fjármála- og efnahagsráðherra fái heimild til að breyta hlut ríkissjóðs í skammtímaláni í Hörpu í eigið fé að því gefnu að Reykjavíkurborg samþykki jafnframt að breyta sínum hlut í umræddu láni í eigið fé.

3. Meiri hlutinn gerir það að tillögu sinni að efla eigið fé Íbúðalánasjóðs um allt að 13 milljarða kr. Í september sl. skipaði fjármála- og efnahagsráðherra á grundvelli umræðna í ríkisstjórn starfshóp sem falið var það hlutverk að fara yfir stöðu og horfur Íbúðalánasjóðs og meta hvort og þá hvernig staðið yrði að því að tryggja efnahag sjóðsins.

Auk fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins sátu í hópnum fulltrúar velferðarráðuneytis, forsætisráðuneytis og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Í niðurstöðu hópsins kemur fram að staða og horfur í rekstri sjóðsins séu mun erfiðari en áður hefur komið fram. Sú staða birtist meðal annars í ófullnægjandi vaxtamun sjóðsins sem leiðir til viðvarandi rekstrarhalla, áframhaldandi aukningar vanskila og vaxandi afskriftaþarfar auk mikillar áhættu sem tengist uppgreiðslu veittra lána.

Þá er yfirtaka fullnustueigna farin að valda sjóðnum verulegum kostnaði. Þessir þættir valda því að rekstur sjóðsins er ekki sjálfbær. Um mitt ár 2012 hafði eiginfjárhlutfall sjóðsins lækkað um þriðjung frá ársbyrjun, þ.e. úr 9,5 milljörðum kr. í 6,5 milljarða. Hætt er við að þessi þróun hafi haldið áfram á síðari hluta ársins jafnvel þannig að eigið fé sjóðsins sé að mestu uppurið.

Sé eiginfjárstaðan ekki styrkt þannig að það hafi í för með sér að skuldahæfi sjóðsins lækki er ekki hægt að útiloka að það hafi neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir lánshæfi ríkisins og annarra lánastofnana.

Lagt er til að í fjárlögum 2013 verði veitt heimild til að auka stofnfé um allt að 13 milljarða kr. þannig að eiginfjárhlutfall sjóðsins verði eigi lægra en 3% miðað við ársbyrjun 2013. Jafnframt verði því lýst yfir að það sé áfram stefna stjórnvalda að eigið fé sjóðsins verði 5% líkt og kveðið er á um í reglugerðum um hann. Ákvarðanir um frekari framlög verða hins vegar ekki teknar fyrr en ítarleg athugun á rekstrarhæfni Íbúðalánasjóðs er lokið og skýrst hefur hverjum árangri þær ráðstafanir sem stjórnvöld hyggjast nú ráðast í muni skila.

4. Lagt er til að liður 2.19 í 6. gr. frumvarpsins, eins og það var samþykkt við 2. umr., falli niður. Í hans stað komi nýr liður sem heimili leigu á eignum ríkisins að Gufuskálum á Snæfellsnesi í stað sölu eins og áður hafði verið samþykkt.

5. Meiri hlutinn gerir tillögu um að heimilt verði að leigja eða kaupa hentugt húsnæði fyrir verknámsdeild Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.

Að lokum er gerð tillaga um 585 millj. kr. hækkun fjárheimilda sökum vaxtagjalda ríkissjóðs vegna styrkingar á eigin fé Íbúðalánasjóðs sem áður hefur verið nefnt. Áformað er að greiða framlagið út með útgáfu skuldabréfs um mánaðamótin febrúar/mars 2013 en ekki liggur fyrir á þessu stigi í hvaða flokki útgáfan verður en miðað er við 5,4% óverðtryggða vexti sem þýðir að vaxtakostnaður ríkissjóðs af 13 milljarða kr. skuldabréfi verður 585 millj. kr. á næsta ári.

Virðulegur forseti. Mikilvægast af öllu í þeim breytingum og við þá þinglegu meðferð sem fjárlagafrumvarpið hefur fengið á undanförnum þremur mánuðum rúmlega er að tekist hefur að halda áætlun um meginmarkmið frumvarpsins, þ.e. að draga úr halla ríkissjóðs eins og kostur er. Í tillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir því að hverfandi breyting verði á rekstri ríkissjóðs hvað þetta varðar frá því sem lagt var upp með í upphaflegu frumvarpi þann 11. september sl. Ég held að hægt sé að fullyrða að ekki hafi áður tekist að halda breytingum á milli 1. umr. fjárlaga til þeirrar 3. í slíkum farvegi hvað þetta varðar. Þetta ber auðvitað merki um agaðri stjórn ríkisfjármála en verið hefur um langan tíma og einlægan vilja allra sem að málinu koma, ekki síst meiri hluta og minni hluta fjárlaganefndar, til að ná árangri sem þessum og hefur það borið þann ávöxt sem við erum nú að fjalla um við 3. umr. fjárlaga.

Breytingartillögur meiri hlutans bera vott um þá áherslu sem þessir tveir stjórnarflokkar leggja á uppbyggingu samfélagsins eftir hrun fjármálakerfisins haustið 2008.

Nú þegar farið er að sjást til sólar að nýju eftir umfangsmiklar aðgerðir undanfarinna ára er lagt af stað með það að bæta það tjón sem hrunið olli á veikustu hliðum samfélagsins. Í fjárlagafrumvarpinu eins og það lítur núna út, tilbúið til lokaafgreiðslu, er hafin af krafti uppbygging í velferðar- og menntakerfinu. Viðbótarútgjöld innan þess ramma og þeirra möguleika sem fyrir hendi eru miða öll að því að efla rekstur heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa ásamt því að bæta framhalds- og háskólum landsins upp tjónið af hruninu.

Í þessu síðasta fjárlagafrumvarpi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar að sinni er lagður grunnur að nýrri efnahags- og atvinnustefnu. Sömuleiðis er brugðist við vanda illa staddra sveitarfélaga, m.a. með því að fela Byggðastofnun forræði á sértækum aðgerðum í fámennum byggðarlögum sem búa við bráðavanda vegna fólksfækkunar og verja til þess fjármunum sem Byggðastofnun mun ráðstafa í þeim tilgangi.

Breytingartillögur meiri hlutans miða að því að skjóta traustari stoðum undir atvinnulífið í landinu, blása lífi í nýjar atvinnugreinar og leysa úr læðingi þá orku sem býr í þeim geira atvinnulífsins sem lítið hefur verið sinnt og naut í litlu stuðnings stjórnvalda fyrri tíma. Þar má nefna hinar skapandi greinar, listir og menningu, tónlist, kvikmyndagerð og kvikmyndaframleiðslu, svo að dæmi séu tekin. Gegn þessu hafa hægri menn á Alþingi talað af fullum þunga og jafnvel af offorsi. Hugsunin um atvinnu án þess að það þurfi að grafa skurð eða stífla á virðist þeim framandi, enda hefur öskugrár reykurinn staðið úr öllum þeirra vitum í umræðum á Alþingi um atvinnumál að undanförnu, ekki síst um rammaáætlun sem lauk hér fyrir nokkrum mínútum. Hægri menn hafa barist og berjast enn fyrir því að Ísland verði um aldur og ævi í virkjunarflokki eins og verið hefur hingað til. Í þeirri umræðu varð þeim tíðrætt um að skapa þyrfti verðmæt störf og forðast þá væntanlega hin sem ekki teljast eins verðmæt eða gild eða hafa sama vægi.

En hvað eru verðmæt störf? Getur það verið að hér inni sitji þingmenn sem telji engin verðmæti fólgin í því að efla hinar skapandi greinar á sviði nýsköpunar, listar og menningar? Getur verið að Alþingi sé þannig að skipað að nánast helmingur þingmanna telji störf í kvikmyndagerð ekki þess virði að eyða miklu púðri í þau, að þau séu ekki verðmæt eða samanburðarhæf við önnur störf í landinu? Getur það virkilega verið, virðulegur forseti, að allir þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks séu í hjarta sínu þeirrar skoðunar að tónlist sem atvinnugrein sé eins og hver önnur tómstundaiðja til þess eins ætluð að hafa ofan af fyrir okkur hinum, en ekki alvöruatvinnugrein sem skapi verðmæt störf?

Munu þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks virkilega allir sem einn leggjast gegn stuðningi við hinar ýmsu greinar atvinnulífsins sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu og eru nú í fyrsta sinn dregnar fram af einhverri alvöru?

Fulltrúar þessara tveggja flokka hafa stillt upp gömlum, gjaldþrota hugmyndum fortíðarinnar í atvinnumálum gegn framtíðarhugmyndum stjórnarflokkanna og þeirra sem bak við þær standa, hugmynda sem er ætlað að skjóta enn traustari fótum undir íslenskt efnahags- og atvinnulíf en áður hefur þekkst. Sjaldan hefur verið talað eins gegn íslensku atvinnulífi og gert hefur verið á þinginu undanfarin missiri og undanfarna daga. Sjaldan eða aldrei hefur hinu fjölbreytta atvinnulífi verið sýnd jafnmikil lítilsvirðing á Alþingi og gert hefur verið í málflutningi stjórnarandstöðunnar, nefni ég þar aftur rammaáætlun og fjárlög þau sem við erum að ræða.

Það er fyrir löngu kominn tími til að fara aðrar og nýrri leiðir í atvinnumálum á Ísland en gert hefur verið. Það er fyrir löngu kominn tími til að hefja til vegs og virðingar þær greinar atvinnulífsins sem haldið hefur verið í skugganum af gömlu hugmyndunum. Það þarf ekki að grafa skurð, virðulegur forseti, til að skapa verðmæt störf. Verðmæt störf er hægt að skapa í ólíkum greinum um allt land til hliðar og jafnfætis öðrum verðmætum störfum.

Nú liggur í loftinu hótun Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um að lemja niður allar þær nýjungar sem verið er að ræsa í fjárlagafrumvarpinu sem bíður atkvæðagreiðslu í þinginu, þ.e. þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem snýr að fjárfestingaráætluninni. Við þessu er aðeins eitt svar og það verður gefið í alþingiskosningunum í apríl næsta vor.

Virðulegur forseti. Í fyrsta sinn á þessu kjörtímabili hefur verið lagt upp með kynjaða fjárlagagerð hér á landi í kjölfar samþykktar ríkisstjórnarinnar þar um frá árinu 2009. Í fjárlagafrumvarpi 2010 segir meðal annars um þetta, með leyfi forseta:

„Við ákvarðanir um útgjaldaramma til næstu fjögurra ára verði lögð áhersla á samstöðu um brýn velferðarverkefni, verndun starfa, kynjajafnrétti og áhrif á byggðirnar. Kynjuð hagstjórn verður höfð að leiðarljósi við fjárlagagerð og efnahagsstjórn.“

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er þessu verki haldið áfram og þannig stefnt að því að kynjuð fjárlagagerð verði þegar fram í sækir eðlilegur hluti af fjárlagagerð sem ekki verður litið fram hjá. Má þá nefna að á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis er nú lögð áhersla á að greina sókn í opinbera samkeppnissjóði og úthlutanir úr þeim út frá kynjasjónarmiðum en verkefnið felst í því að rýna styrkjaferlið frá upphafi til enda og leggja mat á það með kynjasjónarmið að leiðarljósi.

Á vegum utanríkisráðuneytis verður farið í verkefni í kynjaðri fjárlagagerð sem snýr að greiningu á framlögum Íslands til þróunarsamvinnu með tilliti til þess hvort þeim er ætlað að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna.

Á vegum innanríkisráðuneytis verður ráðist í verkefni sem varða gjafsóknir.

Á vegum velferðarráðuneytis verður meginmálaflokkur í kynjaðri fjárlagagerð um málefni aldraðra og þá sérstaklega afmarkað við aldraða á hjúkrunarrýmum.

Öll þessi verkefni og mörg fleiri koma til viðbótar öðrum verkefnum innan ólíkra málaflokka sem unnið hefur verið að við kynjaða fjárlagagerð á kjörtímabilinu.

Ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar tók við efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar í rjúkandi rústum hins fullkomna hruns eftir áratugalanga efnahagslega ógnarstjórn Sjálfstæðisflokksins sem lengst af studdist við þá pólitísku hækju sem Framsóknarflokkurinn hefur ætíð umbreytt sér í þegar eftir því hefur verið kallað. Það hrun var ekki einungis efnahagslegt, það var líka hugmyndafræðilegt og það var siðferðilegt. Um það hafa verið skrifaðar ótal greinar og bækur, jafnt á Íslandi sem í öðrum löndum. Þar hefur forsvarsmönnum Sjálfstæðisflokks á alþjóðavettvangi verið skipað á bekk með helstu efnahagsógnvöldum hverjum á sínu svæði. Sjálfstæðisflokkurinn reynir nú allt hvað af tekur að falsa söguna, eyða gögnum og afmá slóð sína eins og hann best getur, eins og nýleg dæmi sýna. En það mun ekki takast. Efnahags- og atvinnustefna flokksins hefur verið vandlega römmuð inn í kjarnyrtum og skýrum texta í öllum níu bindum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem gefin var út vorið 2010.

Tillögur Sjálfstæðisflokksins sem nú liggja fyrir á Alþingi ásamt málflutningi þeirra í þinginu undirstrika betur en annað að flokkurinn hefur engu gleymt og það sem kannski verra er, hann hefur heldur ekkert lært af fyrri mistökum.

Á þeim tæpu fjórum árum sem liðin eru frá því að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar tók við hefur tekist að snúa öllum meginþáttum íslensks samfélags til betri vegar en nokkur þorði að vona. Halli á rekstri ríkisins er aðeins brot af því sem hann var vorið 2009. Ísland hefur verið leyst úr ánauð hryðjuverkalaga sem sett voru á landið vegna hrunsins. Landið hefur verið losað úr efnahagslegri einangrun á alþjóðavettvangi sem við bjuggum við fyrsta árið eftir hrun. Stjórnvöldum hefur tekist að byggja upp traust og virðingu erlendra þjóða á landinu og þjóðinni, traust sem ekki var fyrir hendi og virðingu sem hafði verið skolað niður svelginn í hruninu.

Hagvöxtur á Íslandi er einn sá mesti í Evrópu, atvinnuleysið sem spáð var við upphaf kjörtímabilsins að yrði mælt í tugum prósenta er það minnsta í Evrópu. Ísland er tekið gilt á vettvangi þjóðanna, það er litið til þess mikla árangurs sem hér hefur náðst og þeirra aðferða sem beitt hefur verið við hruni hægri flokkanna. Íslendingar eru aftur þjóð á meðal þjóða, njóta virðingar fyrir verk sín í stað þeirrar alþjóðlegu fyrirlitningar sem þeim var sýnd vegna hrunsins og orsaka þess. Þetta verður ekki af stjórnvöldum tekið, sagan mun og hefur skrifað sig sjálf hvað þetta varðar.

Ég er stoltur af þeim árangri sem náðst hefur í fjármálum ríkisins á kjörtímabilinu og endurspeglast í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Sá árangur er að flestu leyti umfram væntingar sem gerðar voru til okkar Íslendinga vorið 2009. Það á jafnt við um efnahagslegan þátt málsins sem hinn pólitíska eins og ég hef nefnt hér að framan.

Það er þó ekki þannig að allur sá vandi sem hrunið og afleiðingar þess kostuðu samfélagið sé að baki. Það er enn langt frá því að svo sé en það hefur tekist að ná utan um vandann og leggja grunn að betra samfélagi en áður og því mega stjórnmálamenn framtíðarinnar ekki klúðra, virðulegur forseti.

Ég vil að lokum þakka samstarfsnefndarmönnum mínum í fjárlaganefnd samstarfið við vinnslu málsins í þá ríflegu þrjá mánuði sem nefndin hefur haft það til umfjöllunar. Ég vil ekki síður þakka starfsfólki fjárlaganefndar og starfsfólki nefndasviðs fyrir sinn hlut sem seint verður metinn að verðleikum. Undir álit meiri hluta fjárlaganefndar skrifa Björn Valur Gíslason, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Lúðvík Geirsson, Valgerður Bjarnadóttir og Skúli Helgason.