141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér standa engar falsanir yfir á einu né neinu, ekki nokkrum sköpuðum hlut. Þetta eru tillögur meiri hluta fjárlaganefndar, það er á ábyrgð meiri hlutans að afgreiða þær inn á þing með þeim texta sem meiri hlutinn telur að þar eigi að vera og skýri best tillögurnar. Það þýðir ekki það að tillögur og orðalag í textum sem eru teknir út úr fjárlaganefnd geti ekki tekið breytingum hjá þeim sem bera ábyrgð á tillögunum. Það er ekki minni hlutinn sem ræður því, þannig eru tillögur ekki afgreiddar út.

Í því tilfelli sem hv. þingmaður nefnir að í upprunalegum texta hafi staðið að tekjur af aðgangseyri að sýningum Náttúruminjasafnsins ættu að standa undir rekstri, var það einfaldlega tekið út vegna þess að ekki er talið raunhæft að tekjur af aðgangseyri standi undir því. Það yrði þá líklega eina safnið á Íslandi þar sem aðgangseyrir stæði undir slíkum rekstri. Það er mat okkar í meiri hluta fjárlaganefndar að svo verði ekki og þess vegna tökum við þennan texta út til að hafa tillögur okkar sem raunhæfastar og eðlilegastar til afgreiðslu í þinginu.

Hv. þingmaður spurði hvort ég væri stoltur af því sem gert hefur verið á yfirstandandi kjörtímabili varðandi kynjaða fjárlagagerð og kynjamál. Já, ég er stoltur af því. Ég er mjög stoltur af því að hafa tekið þátt í því að innleiða nýjungar í fjárlagagerð á Íslandi, m.a. með kynjaðri fjárlagagerð. Það voru aðrir valkostir í boði og það eru aðrir valkostir í boði. Það hefur verið hæðst hér í þingsal að þessum tillögum og þessari vinnu af fulltrúum stjórnarandstöðunnar í hvert skipti sem þær ber á góma. Það er hinn kosturinn, (Forseti hringir.) að fara til baka. Ég er mjög stoltur af mínum þætti í þessu.