141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin en hann hafði ekki tíma til að svara því sem ég spurði um og sneri að þeim 2,6 milljörðum sem vantar í uppbygginguna á Bakka. Það kom mjög skýrt fram á fundi fjárlaganefndar að sveitarfélögin mundu ekki skrifa undir samkomulag um þessa atvinnuuppbyggingu þar nema þessir fjármunir kæmu inn í fjárlögin. Þetta er auðvitað forsendan fyrir því að gert ráð fyrir þessum framkvæmdum í hagvaxtarspá Hagstofunnar og það mun þá væntanlega koma inn á tekjuhliðinni.

Ég bað hv. þingmann að svara mér um textann um náttúruminjasýninguna en ég er ekki alveg búinn að átta mig á þessu. Ég geri ekki athugasemdir við að meiri hlutinn hafi séð að aðgangseyrir standi ekki undir þessum rekstri, en það sem ég geri athugasemdir við er að þegar málið er afgreitt út úr nefndinni er þessi texti inni í breytingartillögunni. Síðan þegar málinu er dreift, af því að ég hef skoðað þetta sérstaklega, er búið að taka þennan texta út. Ef hv. þingmanni finnst eðlilegt að við höfum ekki séð neinar forsendur fyrir því eða samkomulag um hvernig eigi að standa að (Forseti hringir.) rekstrinum og að þetta sé gert með þessum hætti er ég ósammála hv. þingmanni um það.