141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum sem betur fer það ágætlega stödd að við þurfum ekki að leita í smiðju Framsóknarflokksins eftir því hvernig reka á ríkisfjármálin eða auka hagvöxt á Íslandi. Ég ætla að vona að allar góðar vættir forði Íslandi frá því að við sitjum uppi með það.

Hvað sagði hv. þingmaður áðan? Hvaða orð notaði hann yfir verkefni fjárfestingaráætluninnar? Gæluverkefni. Gæluverkefni, sagði hv. þingmaður áðan. Er það ekki hugurinn sem býr þar að baki? Gæluverkefni. Hefur hv. þingmaður stutt hluta þeirrar (Gripið fram í.) tekjuöflunar sem keyra á þessi gæluverkefni áfram, eins og veiðigjaldið? Nei, það hefur hann nefnilega ekki gert. Hann hefur lagst gegn tekjuöflun vegna svokallaðra gæluverkefna ríkisstjórnar, sem hann kallar svo, (Gripið fram í.) þ.e. gegn grænu verkefnunum, skapandi greinunum og öllu því sem hér hefur verið talað um. Hann hefur lagst gegn því öllu saman á þinginu. Hægt er að fletta því upp í gögnum þingsins, hægt er að sjá hvernig menn greiða atkvæði. Ræðurnar eru hljóðritaðar, eins og hv. þingmaður veit, (Forseti hringir.) þær eru skrifaðar upp og birtar í þingtíðindum. Það liggur allt saman fyrir.