141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það liggur ljóst fyrir, ef sagan er skoðuð, að hægri menn á Íslandi kunna ekki með ríkisfjármál að fara. Hérna hafa þeir sett allt reglulega á hausinn á undanförnum áratugum frá lýðveldisstofnun og það hefur alltaf komið í hlut annarra að laga til eftir þá, þó aldrei eins og nú. En þá er núna talað um það, hv. þingmaður nefndi það hér áðan, að árangurinn sem væri að mælast, viðurkenningin sem við hlytum þess vegna, ekki síst á erlendum vettvangi, væri vegna blekkinga, það væri verið að blekkja erlendar þjóðir, erlenda aðila, hreinlega ljúga að þeim eins og þeir séu hverjir aðrir hálfvitar sem hægt er að segja hvað sem er. Höfum við þó lokið öllu samstarfi við þær þjóðir, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og aðra sem komu að því að aðstoða okkur.

Hvers vegna er þetta svona erfitt? Það er bara fyrsta spurningin: Hvers vegna er svona erfitt að viðurkenna staðreyndir (Forseti hringir.) í þessum málum, eins og mér fannst hv. þingmaður eiga erfitt með að gera, þegar þær liggja fyrir? Trúir hv. þingmaður í hjarta sínu að það (Forseti hringir.) sé verið að blekkja erlendar þjóðir, ljúga að þeim og að þær trúi lyginni?