141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Þá liggur ljóst fyrir, virðulegi forseti, að hv. þingmaður telur að stjórnvöld séu að reyna að falsa og blekkja erlendar þjóðir. Hann verður þá bara að standa í þeirri trú.

Einu tillögurnar sem hv. þingmaður og minni hlutinn í fjárlaganefnd leggur til við breytingar á fjárlagafrumvarpinu snúa að því að falla frá hækkunum gjalda á brennivín og tóbak. Rifjast þá upp fyrir mér ákveðið mál sem var tekið til umræðu í upphafi árs 2009, í kjölfar hrunsins, um brennivín í búðir. Ekki fór það nú vel. Og er þetta virkilega — þrátt fyrir 157 tillögurnar sem hv. þingmaður og minni hlutinn í fjárlaganefnd náði ekki fram á undanförnum árum við breytingu á fjárlagafrumvarpinu, væntanlega vegna pólitískra áherslna, væntanlega vegna þess að fyrri tillögur sjálfstæðismanna hafa ekki gengið vel og væntanlega vegna þess að verðlagsáhrifin af því að hafa Sjálfstæðisflokkinn hér í stjórn hafa reynst heimilunum ofviða að sinni — það eina, eftir rúmlega þriggja mánaða vinnu hjá mínum ágætu félögum í Sjálfstæðisflokknum í fjárlaganefnd, (Forseti hringir.) sem þeir hafa fram að færa? Á þingið ekki rétt á því að fá tillögur frá þessum minni hluta í fjárlaganefnd til að ræða, samþykkja eða fella?