141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:50]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er óhætt að segja að nefndarálit 1. minni hluta sé með hvassara móti. Það er mjög gagnrýnið. Hægt er að tína upp úr því mörg orð og hugtök því til staðfestingar. Niðurstaðan er sú að það sé ekki vænlegt til árangurs af hálfu stjórnarmeirihluta eða stjórnarandstöðu að vera í blóðspreng að berja saman einhverja málamyndabreytingartillögu við ófullburða frumvarp. Þessu held ég að sé óhætt að andmæla mjög kröftuglega. Það hefur aldrei í lýðveldissögunni verið tekinn lengri tími í að vinna fjárlög íslenska ríkisins í þinginu en núna, frá 11. september og fram að deginum í dag þegar við ræðum fjárlagafrumvarpið við 3. umr. Tíminn hefur verið mjög rúmur. Hefði að mati hv. þingmanns, framsögumanns minni hluta í fjárlaganefnd, ekki verið meiri vigt og þungi í hinni hörðu og hvössu gagnrýni ef minni hlutinn hefði flutt breytingartillögu til að undirstrika sem valkost og mótvægi við þær tillögur sem við flytjum hér — ég held að langflestar þeirra séu mjög mikilvægar — þó að flokkurinn hafi flutt 52 tillögur á ári síðustu þrjú árin?

(Forseti (KLM): Forseti vill geta þess að tímamæling í ræðustól stendur eitthvað á sér, en tímamæling fer hér fram.)