141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir yfirferð hans í ræðustól Alþingis. Hann nefndi það, vegna þess að við höfum ekki gert upp fjárlagaárið 2012, að hallinn gæti hækkað um 50 milljarða kr. Ég held að það sé nærri lagi vegna þess að á árinu 2011 átti hallinn að vera um 36,4 milljarðar en endaði í 89,4. Á árinu 2010 var talið að halli ríkissjóðs gæti numið um 87,4 milljörðum kr. en hann reyndist vera um 123 milljarðar kr. Með öðrum orðum hafa allar forsendur sem þessi ríkisstjórn hefur gefið sér í fjárlagafrumvarpinu ekki staðist. Aginn hefur verið lítill sem enginn. En spurning mín er þessi, vegna þess að þingmaðurinn kom hér með ágæta umfjöllun um nýbyggingu við Landspítala – háskólasjúkrahús: Hversu mikill telur hann að hallinn á þessu ári gæti orðið samanborið við þá skekkju sem hefur orðið á fjárlögum síðustu ára?