141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég met stöðuna þannig, og það kemur fram í okkar nefndaráliti, að þau útgjöld sem fyrirsjáanleg eru á næsta ári og með þokkalega góðu lagi er hægt að leggja mat á muni auka hallann um 16 milljarða. Það er mjög gróft mat. Matið verður svona gróft vegna þess að við höfum svo fá og lítil og léleg tækifæri, stjórnarandstaðan í fjárlaganefnd eins og hv. þingmaður þekkir, til að afla okkur upplýsinga um grunnþætti.

Varðandi Landspítalann sérstaklega er útilokað mál að svara þeirri spurningu hvaða útgjöld kunni að leiða af því verki á komandi ári, einfaldlega vegna þess að við höfum ekki séð þær forsendur sem þessi breyting byggir á, að skipta verkinu í tvo ólíka verkþætti í því sem lýtur að fjármögnun þessa stóra og mikla verks.