141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna liggur hundurinn grafinn að mínu viti. Hér kemur stjórnarmeirihlutinn og krefur okkur í stjórnarandstöðu um að leggja fram útfærðar tillögur eins og við í Framsóknarflokknum höfum gert og líka Sjálfstæðisflokkurinn. Hjá okkur hafa tillögurnar miðast að því að vernda heilbrigðiskerfið og þá sem minna mega sín.

Nú er það staðreynd, enn eina ferðina, að við höfum ekki fengið álit frá efnahags- og viðskiptanefnd yfir tekjuhluta fjárlagafrumvarpsins sem í mínum huga er grafalvarlegt mál og gerir það kannski enn fremur ókleift að leggja fram heildstæðar tillögur.

Eitt langar mig að nefna: Á árunum 2007–2009 var hér ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þá ákvað ríkisstjórnin að leggja fram fjárlagafrumvarp sem jók ríkisútgjöldin um 20% í miðri þenslunni. Nú mælist Sjálfstæðisflokkurinn hár í skoðanakönnunum. Mun hann læra af þeim mistökum sem hann gerði eða munum við enn á ný sjá útgjaldatillögur eins og Sjálfstæðisflokkurinn sýndi á þessum merku árum í ríkisstjórn með Samfylkingunni?