141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ef Sjálfstæðisflokkurinn á að læra af framsóknarmönnum held ég að við munum seint ná árangri í þeim efnum sem hv. þingmaður ræddi hér um. Ég vil þó segja, varðandi nálgun hans á þetta mál, að ég man vel eftir þeirri umræðu sem var um fjárlögin fyrir árið 2009. Þau voru unnin undir gríðarlegri pressu, meðal annars vegna þess áfalls sem yfir hafði dunið. Það get ég þó fullyrt að þeir sem stóðu í stjórnarmeirihluta, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, á haustinu 2008 unnu ekki að verkefnum sem lutu að tekjuhluta ríkissjóðs með neinum sambærilegum hætti og núverandi meiri hluti fjárlaganefndar er að gera. Menn þorðu þó við fjárlagagerð fyrir árið 2009, fyrstu fjárlagagerð sem þá var, að horfast í augu við veruleikann eins og hann þá var og endurgerðu fjárlögin á tiltölulega skömmum tíma.