141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:05]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka félögum mínum í fjárlaganefnd fyrir gott og á margan hátt ánægjulegt samstarf. Það hefur mikið gengið á í fjárlaganefnd frá upphafi þessa kjörtímabils. Við munum þegar við sátum hér sumarið 2009 og fórum yfir hið svokallaða Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar sem var á endanum fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu til heilla fyrir þjóðina. En það hefur verið ágætissamhljómur meðal nefndarmanna um að reyna að bæta vinnubrögðin og maður heyrir vilja flestra til að beita aga við stjórn ríkisfjármálanna.

Því miður er raunin ekki sú þegar á reynir. Það er kannski þess vegna sem maður bindur vonir við það að ný ríkisstjórn muni átta sig á þeim gríðarlega vanda sem um ræðir og að þeir þingmenn sem munu þá sitja í fjárlaganefnd komi til með að beita sér fyrir breyttum reglum við fjárlagagerð ríkisins, að fjárreiðulögin verði endurskoðuð þannig að nauðsynlegur agi náist.

Þetta helgast af því að fyrir hrun, eins og ég nefndi í andsvari áðan við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, ákvað ríkisstjórnin að eyða 20% umfram það sem hún hafði gert ári áður. Þetta var í miðri þenslunni og ég held að þetta sé hluti af því að hér varð hrun, að við fórum fram af bjargbrúninni. Frá því að bankahrunið varð árið 2008 hefur 2. minni hluti beitt sér fyrir því að leggja fram tillögur sem miða að því að koma á jafnvægi í ríkisbúskapnum. Hann hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að fjölga störfum og liðka fyrir atvinnustarfsemi í stað þess að leggja óhóflegar álögur á atvinnulífið. Þingflokkur Framsóknarflokksins hefur bent á nauðsyn þess að standa vörð um velferðarkerfið og að komið verði til móts við ungt barnafólk með hækkun barnabóta og eflingu Fæðingarorlofssjóðs. Ef það er einhver hópur sem þurfti virkilega á því að halda að ríkisstjórn Íslands beitti sér fyrir hann er það einmitt sá hópur sem stendur í því að koma sér upp fjölskyldu, þaki yfir höfuðið og að byggja upp framtíð sína. En þar hefur ríkisstjórninni algjörlega mistekist. Þetta er líka fólkið sem hefur þurft að taka lán fyrir framtíð sinni sem svo hækka vegna þess að ríkisstjórnin beitir sér fyrir því að leggja álögur á þætti sem hækka verðbólguna.

Tillögur Framsóknarflokksins hafa líka miðað að því að styrkja hinar dreifðu byggðir. Það vita allir að það var lítil sem engin þensla úti á landsbyggðinni og því miður hafa mörg byggðarlög átt undir högg að sækja. Forgangsatriði í mínum huga er að við gerum leikreglurnar þannig að allir sem búa á Íslandi, hvar sem þeir vilja skapa sér framtíð, búi við sömu leikreglur og líka sömu þjónustu frá ríkinu. Við í Framsóknarflokknum höfum lagt grunninn að því að búa til byggðareglur, þ.e. við höfum talað um búsetulýðræði sem mun gera það að verkum að allar byggðir landsins eiga að búa við sömu samkeppnisskilyrði.

Hvað er að gerast núna? Jú, það er verið að hækka álögur, rafmagn og húshitun sem er þvert á það sem ríkisstjórnin stefndi að.

Við vildum að það yrði sett fjármagn í vegaframkvæmdir. Ef það er eitthvað sem bætir lífsskilyrði fólks á stóru svæðunum úti á landi eru það bættar vegasamgöngur. Við vildum fara í jarðgangaframkvæmdir og það er jákvætt að þær séu að fara af stað, sérstaklega í mínu umdæmi, framkvæmdir við Norðfjarðargöng og Vaðlaheiðargöng. Þær ættu báðar að fara af stað núna í vor, en við vildum líka setja pening í almennar vegaframkvæmdir vegna þess að vegakerfið er einfaldlega þannig úr garði gert í dag að það er kominn tími á viðhald og ef ekkert verður gert mun það þýða, því miður, stóraukin framlög úr ríkissjóði á næstu árum, svo ekki sé talað um þá tímaskekkju að hér á landi séu enn þá einbreiðar brýr með tilheyrandi hættu. Það er til skammar fyrir íslenska þjóð sem byggir nú afkomu sína í sífellt meira mæli á ferðamennsku að við skulum bjóða upp á slíka vegi.

Við lögðum líka áherslu á, og þetta er lykilatriði, að staðið yrði við alla þá samninga sem gerðir voru við forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins og ASÍ. Til að mynda lögðum við fram tillögur um að persónuafslátturinn mundi hækka í samræmi við vísitölu. Svo eru margar tillögur um að niðurskurður í heilbrigðismálum hefði orðið minni víðs vegar um land þannig að við byggjum enn þá við sama góða heilbrigðiskerfið og var hér áður en kreppan skall á.

Það kom nefnilega út OECD-skýrsla á árunum 2007–2008 þar sem heilbrigðiskerfi Íslendinga var talið það gott að það væri ekki bara lofsvert heldur ættu aðrar þjóðir að taka það sér til fyrirmyndar. Nú hefur varla liðið sá mánuður að ekki hafi heyrst einhvers staðar hljóð úr horni vegna skertrar þjónustu og skerts öryggis íbúanna á svæðunum, síðast í haust frá starfsmönnum Landspítalans. Þar er staðan því miður þannig að álag er út úr öllu korti, vil ég leyfa mér að segja, og núverandi ríkisstjórn gerir lítið sem ekkert til að spyrna við fótum.

Þegar við förum yfir fjárlög þessa árs er ágætt og í rauninni mikilvægt að skoða þau markmið sem ríkisstjórnin sjálf setti sér. Ríkisstjórnin segir að hér sé hagvöxtur hærri, og kannski með hæsta móti meðal ríkja OECD. Það er rétt en það var heldur ekkert annað ríki sem tók jafnmikla dýfu og hið íslenska. Á árinu 2009 gaf fjármálaráðherra út skýrslu um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013. Í þessari skýrslu koma fram þau markmið sem ríkisstjórnin sjálf setti sér, þau markmið um hagvöxt og verðbólgu sem var raunhæft að ná. Þegar umræða fór fram um þessa skýrslu voru menn sammála um að markmiðin væru frekar lágstemmd, það væri það mikið afl í íslensku þjóðfélagi, undirstöðurnar sterkar og þjóðin það vel menntuð að þau markmið sem ríkisstjórnin setti sér ættu að nást auðveldlega.

Það er merkilegt, virðulegi forseti, að horfa upp á það að skuldir ríkissjóðs nema um 95% af landsframleiðslu. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Óhjákvæmilegt var að bregðast við þessu ástandi með róttækum aðgerðum, setja skorður við frekari skuldaaukningu og ná jöfnuði í ríkisfjármálunum á nýjan leik innan ásættanlegra tímamarka.“

Eitt af þeim markmiðum sem hún setti sér, og ég mundi segja að það væri lykilmarkmið, var að ná skuldum ríkissjóðs niður í 60% af vergri þjóðarframleiðslu eins og stefnt var að. Sú ríkisstjórn sem nær þessu markmiði ekki, heldur situr uppi með 95% skuldahlutfall af landsframleiðslu getur ekki komið hingað og stært sig af góðum árangri, vegna þess að allar horfur benda til þess að út af aðstæðum á erlendum lánamörkuðum muni þetta aukast frekar en minnka. Og nú á þessu fjárlagaári á að auka við skuldirnar en ekki minnka þær. Svona mundi hin hagsýna húsmóðir ekki haga sér, svo mikið er víst.

Svo segir aftur í skýrslunni sem ég nefndi áðan:

„Í áætlun þeirri, sem hér er birt, eru dregin saman þau markmið í ríkisfjármálum sem íslensk stjórnvöld hafa einsett sér að ná á komandi árum. Þessi markmið eru í samræmi við og byggð á samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þau miða að því að koma á jafnvægi og stöðugleika í ríkisfjármálum og þjóðarbúskapnum, og þar með að skapa forsendur fyrir nýja uppbyggingu í efnahags- og atvinnulífi. Áætlunin miðar að því að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og að afgangur verði á rekstri hans á árinu 2013.“

Og þegar árangurinn er metinn verður að miða við þau orð sem hér eru sett fram. Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðarbúskapnum er ljóst að allir þurfa að leggjast á árar í því endurreisnarstarfi sem fram undan er. Æskilegt er að víðtæk sátt og samstaða náist um markmið áætlunarinnar og þær leiðir sem farnar verða að þeim.“

Ég veit að þeim þingmönnum sem sitja hér inni, fjölmörgum eins og sjá má, finnst það skondið í ljósi aðstæðna en í framhaldinu segir að áhersla verði lögð á samstarf við aðila vinnumarkaðarins. Hvað hefur gerst? Aðilar vinnumarkaðarins hafa ítrekað lýst því yfir að ríkisstjórnin standi ekki við gefin loforð, standi ekki við þá samninga sem þeir telja að hafi verið gerðir og vísa í skriflega samninga.

Hér segir:

„Stjórnvöld munu kappkosta að ná víðtækri samstöðu um markmið áætlunarinnar og að tryggja framgang hennar í samstarfi við samtök atvinnurekenda og launamanna á vinnumarkaði. Viðræður hafa farið fram um aðgerðir og ráðstafanir er geti stutt við stöðugleikamarkmið og verður þeim haldið áfram.“

Það er akkúrat þetta sem hefur reitt forsvarsmenn atvinnulífsins til reiði, og ASÍ sérstaklega, vegna þess að það hefur ekki verið staðið við þau orð sem komu fram í þessu skjali.

Síðan er talað um samstarf við sveitarfélög og samstarf við aðra hagsmunaaðila, og þá er kannski rétt að geta þess að á þessu kjörtímabili sendu Hagsmunasamtök heimilanna frá sér stríðsyfirlýsingu, hvorki meira né minna, eftir að hafa rætt við þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra.

Síðan átti að leggja áherslu á atvinnulíf og fjölgun starfa. Hvað skyldi hafa gerst með sjávarútveginn? Stjórnvöld ætluðu að leggja áherslu á að „skapa atvinnulífinu þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að verja og styðja við atvinnustarfsemina í landinu“.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þetta hafi ekki staðist og að í rauninni sé ríkisstjórnin eins langt frá sínum upphaflegu markmiðum og hugsast getur.

Hér fullyrti áðan formaður fjárlaganefndar að við værum á móti tekjuöflunartillögum ríkisstjórnarinnar. Það er rangt. Við höfum bara viljað fara allt aðrar leiðir. Við erum með það í okkar tillögum að við viljum leggja á hóflegt veiðigjald, en það sem kom frá ríkisstjórninni í upphafi var langt frá því að vera hóflegt. Í fyrstu kom tekjuöflunartillaga upp á 25 milljarða, endaði svo í 12–13 milljörðum en við sögðum að 8–9 milljarðar væru ásættanleg upphæð, slík gjaldtaka mundi ekki skaða þessa mikilvægu undirstöðuatvinnugrein.

Nú leggja smærri sjávarútvegsfyrirtæki upp laupana hvert á fætur öðru alveg eins og við bentum á að mundi gerast. Hversu mörg störf tapast til dæmis á Siglufirði, stað sem mátti ekki við því að missa frá sér störf? Þetta er bara lítið dæmi.

Svo kemur hér:

„Það er ásetningur stjórnvalda að þær aðhaldsaðgerðir og niðurskurður útgjalda hins opinbera bitni sem allra minnst á hag heimilanna og velferðarþjónustu, einkum í félags- og heilbrigðismálum, og að félagslegt öryggi allra sé tryggt. Jafnframt að grunnþjónusta á borð við starfsemi skóla verði varin.“

Hvernig stendur þá á því að hér hafa verið haldnir borgarafundir, ekki bara í Reykjavík heldur víðs vegar um land, til að mótmæla þeim óhóflega niðurskurði sem átti að ráðast í á þessu kjörtímabili? Hvernig stendur á því að vandi ýmissa heilbrigðisstofnana víðs vegar um land er enn þá óleystur? Hvernig stendur á því að það er kominn upp þessi gríðarlegi ágreiningur á milli heilbrigðisstarfsstétta og ríkisstjórnar Íslands? Jú, vegna þess að þær fullyrðingar um að standa ætti vörð um velferðarkerfið og tryggja að félagslegt öryggi yrði jafnt hafa verið sviknar. Það er ekkert flóknara en það.

Úr þessum ræðustól hafa stjórnvöld hreykt sér af því að þau hafi komið á fót einhverju sem heitir kynjuð fjárlagagerð. Kynbundinn launamunur hefur aukist í tíð þessarar ríkisstjórnar, það er niðurstaðan. Út á hvað gengur þessi kynjaða fjárlagagerð? Þetta eru ekkert nema orð á blaði, alveg eins og fullyrðingar um að þessi ríkisstjórn ætlaði sér að ná fram auknum aga, bara orð á blaði og fögur fyrirheit en verkin sýna þveröfugt.

Framsóknarflokkurinn hefur ítrekað lagt fram ítarlega útfærðar tillögur og ábendingar um aukinn aga við fjárlagagerðina en þrátt fyrir það ákvað ríkisstjórnin að fara aðra leið við hagstjórn landsins.

Höldum áfram með þetta plagg þar sem markmið ríkisstjórnarinnar koma fram. Þá ætti frumjöfnuður að nema 147,5 milljörðum kr. á árinu 2013. Hins vegar nær hann rétt í 60 milljarða Hversu langt er ríkisstjórnin frá sínum eigin markmiðum? Skuldir ríkissjóðs ættu að nema um 60% af vergri þjóðarframleiðslu en eru um 95%. Hversu langt frá upphaflegum markmiðum sínum er ríkisstjórnin þegar þessar tölur liggja fyrir?

Á árinu 2010 var stefnt að því að halli ríkissjóðs næmi um 87,4 milljörðum kr. Hann reyndist vera um 123,3 milljarðar kr. Á árinu 2011 átti hallinn að vera um 36,4 milljarðar kr. en endaði í 89 milljörðum kr. Á árinu 2012 átti hallinn að vera um 20 milljarðar en verður væntanlega um 50 milljarðar þegar ríkisreikningurinn verður gefinn út. Þetta er ekki dæmi um að þessari ríkisstjórn hafi tekist vel upp í að koma á aga við fjárlagagerð íslenska ríkisins.

Í frumvarpinu fyrir árið 2013 er gert ráð fyrir um 3 milljarða halla. Nú þegar liggur fyrir að 12–13 milljarðar hið minnsta munu bætast við. Við munum væntanlega sjá þess merki í fjáraukalögum næsta árs, en eins og formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Björn Valur Gíslason, sagði rétt áðan á í rauninni ekkert að koma fram í fjáraukalögum hvers árs nema algjörlega ófyrirséð útgjöld. Og þegar hv. þm. Atli Gíslason innti hann eftir því af hverju þessi liður væri jafnhár og raun ber vitni, ef ég man fyrirspurnina rétt, sagði hann að það væri einfaldlega svo mikið af ófyrirséðum útgjöldum, þess vegna þyrfti hann að vera í 5 eða 6 milljörðum.

Því miður hefur þessi fjárlagaliður verið misnotaður. Hann hefur einfaldlega verið notaður af ráðherrum í verkefni sem voru alls ekki ófyrirséð. Auðvitað verða hér einstaka sinnum náttúruhamfarir sem þarf að bregðast við og sem betur fer höfum við þá borð fyrir báru.

Síðan á að ráðast í byggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss á gjörbreyttum forsendum. Það var boðað að eftir 2. umr. kæmi fram einhvers konar tillaga fyrir þá umræðu sem hér á sér stað. Á meðan var ætlast til þess að stjórnarandstaðan legði fram tillögur sínar. Síðast þegar ég vissi var um að ræða einhverja stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, hvorki meira né minna. Þá hljóta menn að spyrja: Já, bíddu, komu þessar tillögur ekki fram?

Nei, þær komu ekki fram, þær eru hins vegar boðaðar á nýju ári. Það er útilokað að átta sig á því hvað þær koma til með að kosta ríkissjóð. Við bara vitum að þær muni kosta tugi milljarða, dýrasta framkvæmd Íslandssögunnar mun ekki kosta minna en einhverja tugi milljarða.

Ég skil vel að ríkisstjórnin sé hrædd við að gera einhverjar tillögur vegna þess að þegar Harpa var sett af stað átti hún að kosta á að giska 6 milljarða en endaði í 34 milljörðum. Því miður er þetta bara til marks um það að við erum langt frá því að koma hér á nauðsynlegum aga í ríkisfjármálum.

Það hefur ekki borist álit frá efnahags- og viðskiptanefnd. Fjárlaganefnd lítur þannig á að efnahags- og viðskiptanefnd verði að gefa álit á tekjuhluta fjárlagafrumvarpsins. Það er fullkomlega eðlilegt og þannig hefur það verið í mörg ár. Það var misbrestur á þessu síðast vegna þess að meiri hlutinn fór í að breyta þingsköpunum og þetta varð niðurstaðan. Síðan var farið í að reyna að breyta þessu og ég skildi það þannig að að sjálfsögðu mundi álit frá efnahags- og viðskiptanefnd berast fjárlaganefnd. Annað er gjörsamlega ófært, við verðum að átta okkur á því hver grunnurinn að tekjuöfluninni er, hvaða afleiðingar hún komi til með að hafa, og gefa öllum þeim sem eiga hagsmuna að gæta tækifæri til að skila inn umsögn. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur ekki afgreitt málið, jafnvel þó að við séum að samþykkja tillögur sem eru fyrst og fremst til komnar út af því sem verður samþykkt seinna í efnahags- og viðskiptanefnd. Þegar staðan er þannig er fullkomlega óábyrgt að leggja fram ítarlegar tillögur við fjárlagagerðina eins og Framsóknarflokkurinn hefur jafnan gert. Það er fullkomlega óábyrgt þegar ríkisstjórnin sjálf veit ekki hvernig staðan er og dæmin sýna að við getum því miður ekki stólað á þær forsendur sem liggja fyrir í fjárlagafrumvarpinu. (Forseti hringir.)

(Forseti (UBK): Forseti vill fara þess á leit við hv. þingmann að hann finni hentugan stað til að gera hlé á ræðu sinni. Það stendur til að vera hér með eina atkvæðagreiðslu.)

Virðulegi forseti. Ég er stopp af því að ég var stöðvaður en það er alveg sjálfsagt að gera það núna, held ég, fyrst ég hef nú þegar verið stöðvaður.