141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:06]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir að það hefur verið ágætt samstarf í fjárlaganefnd og ég fullyrði líka að sjaldan eða aldrei hefur nokkurt frumvarp til fjárlaga verið unnið eins vel og vandvirknislega og það sem við erum að ræða við 3. umr. í dag. Það eru yfir þrír mánuðir, um 100 dagar, síðan málið kom fram á Alþingi og það er lengri tími og rýmri en áður þekkist í þingsögunni. Svo getur menn greint á um einstök atriði, hvort þau hafi verið rædd nógu mikið o.s.frv. en í það heila er þetta frumvarp afskaplega vel og vandvirknislega unnið.

Þá mótmæli ég því líka sem hv. þingmaður sagði um að stjórnarmeirihlutinn og ríkisstjórnin hefðu ekki staðið undir nafni í velferðarmálum. Í gegnum hin erfiðu fjárlög síðustu ára hefur alltaf verið forgangsraðað í þágu heilbrigðiskerfis, menntakerfis og velferðarmála. Hv. þingmaður veit að þegar ríkisreikningur hefur verið færður niður um allt að fimmtung á þrem, fjórum árum var alltaf forgangsraðað mjög afgerandi í þágu þessara málaflokka.

Hv. þingmaður kallaði safnliði gæluverkefni en þeim var útvistað, sem betur fer, og þeir eru ekki komnir aftur þó að það séu nokkur atriði hérna sem er verið að leiðrétta, laga og bæta. Þingmaðurinn kallaði það nokkuð háðulegu nafni, sem sagt gæluverkefni einstakra þingmanna. Ég mótmæli því mjög afdráttarlaust. Þetta eru meira og minna allt mjög góð mál.

Menn geta deilt um hvort einhver þeirra geti beðið eða verið frestað o.s.frv. en í það heila eru þetta allt velferðarmál sem skipta miklu máli. Það má nefna 45 millj. kr. til sóknargjalda, til kirkjunnar, það má nefna 7 milljóna framlag til Hlaðgerðarkots, sem er meðferðarheimili fyrir langt gengna sjúklinga. Það má nefna fleiri slík mál, 200 milljóna tímabundið framlag til að mæta uppsöfnuðum halla löggæsluembættanna úti á landi til að koma í veg fyrir frekari fækkun lögreglumanna.

Ég fullyrði að þetta eru allt mjög mikilvæg velferðarverkefni, hvert með sínum hætti, sem eru ekki með neinum hætti gæluverkefni eins eða neins. Þetta eru mikilvæg mál sem þarf að leiðrétta, laga og bæta við.