141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jafnvel þó að hér sé hægt að koma upp í ræðustól Alþingis og nefna einhvern dagafjölda skiptir öllu máli vinnulagið og sú efnislega meðferð sem þarf að fara fram í fjárlaganefnd. Það er það sem við í minni hlutanum gagnrýnum harðlega. Hefur farið fram efnisleg umræða um nýbyggingu háskólalandspítala? Nei. Fór fram efnisleg umræða um það hvaða verkefni ættu að njóta velvildar fjárlaganefndar og hver ekki? Er til yfirlit yfir það hverjir sóttu um fjárframlög til fjárlaganefndar en var hafnað eða hverjir gátu einfaldlega haft aðgang að einstaka nefndarmönnum í meiri hlutanum?

Það er þetta sem við erum að tala um að séu algjörlega ófullnægjandi vinnubrögð.

Ég verð líka að nefna að frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013 var afgreitt úr fjárlaganefnd til 3. umr. á miklum hraða. Af hverju þurfti þennan hraða ef þessi mikla efnislega umræða hafði farið fram sem hv. þingmaður kom hér inn á?

Að sjálfsögðu eru hér mörg góð verkefni, ég ætla ekki að gera lítið úr þeim, síst af öllu þeim fjármunum sem þó er varið til heilbrigðismála. En ég trúi því ekki að óreyndu að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, sem ég veit að er mjög landsbyggðarþenkjandi, geti komið hér upp og fullyrt að staðan á heilbrigðisstofnunum úti á landi sé ásættanleg.