141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég benti á það akkúrat í andsvörum við hv. þm. Björn Val Gíslason, formann nefndarinnar, í umræðunni áðan að þegar málið er tekið út með tilteknum skjölum sem ég hef náttúrlega undir höndum er tekinn út texti sem segir að aðgangseyririnn eigi að standa undir rekstri og leigu á sýningunni þegar hún hefur verið sett upp. Það er búið að taka það út. Mönnum finnst þetta bara allt í lagi og því var svarað þannig: Meiri hlutinn ræður.

Ég hef engar áætlanir, enga samninga við sveitarfélögin eða nokkurn skapaðan hlut. Það eru öll þessi vönduðu, góðu vinnubrögð sem við í minni hlutanum í nefndinni höfum aðgang að.

Hv. þingmaður var krafinn svara, ég man nefnilega vel eftir því, við 2. umr. um fjárlög, um hvort hann styddi byggingu nýs landspítala þó að menn væru að vinna með þessar tillögur hér. Það sýnir hversu óraunhæft það er að kalla eftir svörum, hvort menn styðji þessar framkvæmdir og þennan viðsnúning sem verður hér. Svo ætla menn að finna því stað í ríkisfjármálunum að fara í ríkisframkvæmd á spítalanum sjálfum en ætla síðan að fara með þennan hluta sem snýr að sjúkrahótelinu, bílakjallaranum eða bílageymslunum og síðan að skrifstofubyggingunum inn í svokallaða leiguleið.

Hv. þingmaður kom töluvert inn á þetta í sinni ræðu og rifjaði upp þegar menn lögðu af stað með málið. Þá var sagt: Ef við förum í þessa framkvæmd spörum við 3 milljarða í rekstri spítalans, u.þ.b. 10%. Síðan fengum við í hv. fjárlaganefnd örstutta kynningu á vorþinginu, og hver var þá skýringin? Hún var þessi: Ef við förum í framkvæmdina losnum við nefnilega við að bæta við kostnaðinn, þ.e. þá var akkúrat farið í að spara 3 milljarða í hina áttina. Þetta var 6 milljarða viðsnúningur.

Hvernig í ósköpunum á til að mynda minni hluti fjárlaganefndar eða þeir sem sitja þeim megin við borðið að geta við þessar aðstæður áttað sig á því sem er að gerast? Þetta eru algjörlega forkastanleg vinnubrögð.