141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson lýsir hér er því miður dæmi um þau vinnubrögð sem hafa viðgengist í fjárlaganefnd á þessu ári. Það er rétt, ég var krafinn svara um það hvort ég væri með eða á móti byggingu nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þar þarf að laga húsakost þannig að hann þarf að bæta á komandi árum með einum eða öðrum hætti.

Ég er hins vegar á móti því að það verði ráðist í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar með þeim hætti sem nú er ráðgert. Ég er á móti því að það sé gert án þess að fram fari efnisleg og málefnaleg umræða um það hvað við gætum sloppið með í ljósi bágrar afkomu ríkissjóðs. Það er alveg rétt að við komumst ekkert áfram ef þetta snýst um það hvað við höfum eytt mörgum dögum eða hvort við séum á móti hinu eða þessu án þess að við kryfjum málið í fjárlaganefnd og hér í ræðustól Alþingis.

Ég átta mig vel á því að stjórnarþingmenn forðast umræðuna. Ég get alveg sagt það að ég saknaði þess verulega að hæstv. fjármálaráðherra skyldi ekki taka til máls við 2. umr., sérstaklega í atkvæðagreiðslunni, að hæstv. fjármálaráðherra sjálfur skuli ekki hafa komið fram og lýst skoðunum sínum á fjárlagafrumvarpi sem þó var reyndar lagt fram af öðrum ráðherra. Þessi umræða verður að fara fram.

Við upplifum það á eigin skinni að það hafi verið fullyrt að aðgangseyririnn mundi standa undir kostnaði við náttúruminjasýninguna. Það var líka fullyrt að Harpa mundi reka sig sjálf og það þyrfti ekki fjárframlög úr ríkissjóði nema til byggingarinnar. (Forseti hringir.) Því miður hefur komið á daginn að þetta reyndist rangt, virðulegi forseti, og það ber því miður vitni um agalausa fjárstjórn á ríkissjóði.