141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:01]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála því að þetta hafi algjörlega brugðist. Orðalagið „kynjuð hagstjórn“ kemur fyrir í fyrsta skipti í fjárlagafrumvarpinu en þau atriði sem þar eru tekin fyrir eru léttvæg, eru afar léttvæg og nánast til málamynda. Ég tel að þessi verkefni skili gagni. Þegar farið er í hagræðingar og niðurskurð í kynjaðri hagstjórn þá er það skoðað gaumgæfilega hver áhrif þess verða á kynin. Ef skorið er niður í heilsugæslunni og á sjúkrahúsinu á Selfossi og þarf að fækka starfsmönnum, hvaða áhrif hefur það? Jú, ef menn hefðu skoðað það með kynjagleraugum hefðu þeir séð að það bitnaði 80% á konum.

Kynjuð hagstjórn á líka að beinast að því að útrýma kynbundnum launamun. Menn eiga að fara í aðalatriðin í jafnréttis- og kvenfrelsisbaráttunni, þ.e. í kynbundna launamuninn, kynbundna ofbeldið og fleira. Og hvað getum við gert í fjárlögum til þess? Við erum með tillögur um 75 millj. kr. framlag á ári til Jafnréttisstofu til að fara í átak, það væru kynjuð fjárlög. En orðið er í fyrsta skipti í fjárlagafrumvarpi í fyrra og aftur í ár og tekin eru upp verkefni sem gagn er að, ég geri ekki lítið úr því, varðandi aldraða og fleira eins og nefnt er þarna.

Að lokum um fjárlagagerðina. Ég er ótrúlega óánægður með uppsetninguna og framsetninguna. Það er ekki nema fyrir sérfróða og sérlærða menn, eða nefndarmenn í fjárlaganefnd, að átta sig á þessum tölum. Það væri fróðlegt að leggja próf fyrir landsmenn um skilning á fjárlögum. Einu vil ég bæta við: Fjárlagafrumvarpið er ekki gagnsætt eins og fyrirheit ríkisstjórnarinnar voru í samstarfsyfirlýsingu.