141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:33]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að biðja hv. þingmann að útskýra eitt fyrir mér sem snýr að því sem hann endaði á í ræðu sinni, Húsi íslenskra fræða. Þegar málið var fyrst kynnt inni í fjárlaganefnd var lagt til að ríkið mundi leggja fram 800 millj. kr., það er að segja 1/3 af heildarupphæðinni. Við 2. umr. var gert ráð fyrir að ríkið mundi leggja til 467 millj. kr. en síðan við 3. umr. er lagt til að það verði 150 millj. kr. Í raun og veru er þetta svo að happdrættið er látið koma með tveggja ára framlag miðað við þriggja ára verkáætlun. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort honum finnist eðlilegt að ríkið leggi til 150 millj. kr. af 2,4 milljarða kr. framlagi á þremur árum? Í raun og veru er bara verið að velta vandanum yfir á þá sem taka við, að mínu viti. Finnst honum þetta eðlileg vinnubrögð?

Í öðru lagi: Þegar hv. þingmaður fór yfir breytingartillöguna kom hann inn á það sem snýr að Íbúðalánasjóði. Þar er lagt til að vaxtakostnaður vegna skuldabréfsins sem á að gefa út upp á rúmar 500 millj. kr. verði fært á kostnað hjá ríkinu. Finnst honum ábyrgt að gera það þegar fram hefur komið á fundi hv. fjárlaganefndar að forsvarsmenn Íbúðalánasjóðs meti lágmarksafskriftaþörf sjóðsins á árunum 2012 og 2013 um 6 milljarða króna? Er þetta ekki bara staðfesting á því að þetta verður á endanum sett inn í ríkisreikning? Það hefur jú verið með þeim hætti á undanförnum árum að niðurstaða ríkisreikninga er allt önnur en gert er ráð fyrir.

Því vil ég spyrja hv. þingmann um þetta tvennt. Annars vegar um 150 millj. kr. framlag úr ríkissjóði í þriggja ára verkefni á næsta ári og geyma eftir rúma 2,2 milljarða fyrir næstu stjórnvöld og hins vegar það sem snýr að Íbúðalánasjóði.