141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það sem snýr að tekjuhlið frumvarpsins, hvað honum finnist um að enn hafi ekki verið farið yfir og skilað áliti úr hv. efnahags- og viðskiptanefnd til hv. fjárlaganefndar. Ég spyr sérstaklega í ljósi þeirrar breytingartillögu sem hæstv. ráðherra hefur dreift eftir samningaviðræður við þingmenn Bjartrar framtíðar.

Það væri líka athyglisvert að spyrja hæstv. ráðherra hver skoðun hennar sé á hækkun virðisaukaskatts af ferðaþjónustu. Lagt var upp með að um yrði að ræða 2,6 milljarða kr. en niðurstaðan er þessi eftir síðustu samningalotu við þingmenn Bjartrar framtíðar, hver eru viðbrögð hæstv. ráðherra við því?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um það sem snýr að Íbúðalánasjóði. Hæstv. ráðherra sagði að erfitt væri að meta hver niðurstaðan yrði. Það kom alveg skýrt fram á fundi hv. fjárlaganefndar að forsvarsmenn Íbúðalánasjóðs meta afskriftaþörf sjóðsins 6 milljarða kr. að lágmarki. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti ekki verið sammála mér um að mikilvægt sé að setja þetta inn í fjárlög ársins 2013 af því að fyrirséð er að þetta fer annars vegar í ríkisreikning 2012 og hins vegar ríkisreikning 2013 eða í fjáraukalögin? Þessir 6 milljarðar kr. verða klárlega að koma til afskrifta og því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki væri nær — og af því að hæstv. ráðherra kom vel inn á það mikilvæga verkefni sem er fram undan, að ná tökum á skuldsetningu ríkissjóðs, þá er þetta auðvitað eitt af þeim atriðum þar sem við verðum að gera okkur grein fyrir rekstrarumfangi ríkissjóðs, hver hinn raunverulegi rekstur er. Ég kalla eftir því.

Þegar 33 milljarðarnir voru settir inn árið 2010 voru þeir allir gjaldfærðir en nú á að setja 13 milljarða og ekki á að gjaldfæra nema bara skuldina sem snýr að vaxtagjöldunum. Hver er munurinn á því?