141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi sölu eigna tel ég líka mikilvægt að við rennum styrkum stoðum undir atvinnulífið og atvinnugreinar í vexti og veitum innspýtingu inn í þær til að skapa framtíðartekjur fyrir ríkissjóð svo að hann geti greitt niður skuldir. Tekin var ákvörðun um það og þess vegna er lögð jafnmikil áhersla og raun ber vitni á fjárfestingar, þ.e. fjárfestingar í nýsköpun, fjárfestingar í skapandi greinum, fjárfestingar í stofnframkvæmdum, í heilbrigðisstofnunum eins og farið var ágætlega yfir í ræðu hér áðan og fangelsi og fleira. Það er vegna þess að við teljum að það hafi jákvæð áhrif. Það skili sér síðan aftur í vaxandi köku.

Samstarf við aðra aðila um þetta stóra verkefni — ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það skiptir máli að sem flestir gangi í takt og menn eigi jákvætt og uppbyggilegt samtal um það hvernig það geti orðið. Ég tel til dæmis að stöðugleikasáttmáli, sem gerður var snemma á kjörtímabilinu, eigi sinn þátt í því hversu vel hefur tekist til í ríkisfjármálunum á þessu kjörtímabili. Það er algjörlega mín skoðun að hann skipti mjög miklu máli og hann var gerður í víðtæku samráði samtaka launþega og atvinnurekenda.

Eins og ég lýsti áðan höfum við verið í mjög þungri varnarbaráttu fyrir ríkissjóð, við höfum verið að brúa gat, við höfum þurft að fara í erfiðar tekjuöflunaraðgerðir og erfiðan niðurskurð og taka á okkur þung högg. En okkur hefur tekist að komast í gegnum það. Næsta verkefni er að ná saman með þeim aðilum sem hv. þingmaður nefndi og vonandi þverpólitískt um að setja saman mjög þétt vaxtarplan, þ.e. áætlun um það með hvaða hætti við ætlum að tryggja vöxt hér á landi til framtíðar. Ég held að það sé næsta stóra pólitíska verkefnið.