141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór vandlega yfir það hvernig þessari ríkisstjórn eða Alþingi, meiri hlutanum, hefur tekist að ná markmiðum í ríkisfjármálum og minnka þetta gat. Ég fór vandlega yfir það í ræðu minni. Það er með blandaðri leið tekjuöflunar og niðurskurðar. Samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins hafa uppsöfnuð áhrif þessara tekjuaðgerða bætt frumjöfnuð ríkissjóðs sem nemur nærri því 14% af vergri landsframleiðslu. Það eru engin töfrabrögð. Það er bara töff vinna, það er erfið vinna. Það eru erfiðar ákvarðanir þar að baki. Alls engar töfralausnir, alls engin töfrabrögð. Þetta hefur verið erfitt og margir hafa þurft að taka á, horfa ofan í það að þurfa að greiða atkvæði með erfiðum niðurskurði, með tekjuöflunaraðgerðum sem mönnum er þvert um geð. En engu að síður höfum við gert þetta til að ná þessu heildarmarkmiði. Hvers vegna eru menn tilbúnir til þess? Það er vegna þess að á endanum mun það hafa jákvæð áhrif á samfélagið allt, hvort sem það eru heimilin eða fyrirtækin í landinu. Þess vegna hafa menn staðið í þessu.

Virðulegi forseti. Þennan árangur er ekki hægt að eigna einhverjum einum. Þingið hefur staðið í þessari vinnu, hefur samþykkt þessi erfiðu fjárlög og þingmenn hafa gert það og gert það afar vel. Það hefur skipt máli. Þess vegna held ég að við ættum, þrátt fyrir kosningar og þrátt fyrir það sem gerist í þeim og eftir þær, að halda áfram að standa saman um að ná tökum á heildarjöfnuðinum þannig að við förum í plús og getum farið að breyta vöxtum í velferð og menntun. Það er algjört lykilatriði.

Af því að hv. þingmaður nefndi breytingartillöguna sem ég kom með má vel vera að það sé einsdæmi í þingsögunni, mér er það þó reyndar mjög til efs. En staðan er einfaldlega þannig að þegar fyrirsjáanlegt er að breyting af þessu tagi verði gerð er eðlilegt að það sé endurspeglað í fjárlagafrumvarpinu, sérstaklega meðan sú umræða er opin hér. Því fannst mér heiðarlegast að koma einfaldlega með þá breytingu hingað inn að virðisaukaskattsliðurinn í (Forseti hringir.) tekjuöflun verði lækkaður sem þessari breytingu nemur. Bara heiðarlegra þannig að við sitjum ekki uppi með það (Forseti hringir.) eftir á að vera með samþykkt fjárlög sem taka ekki mið af samþykktri tekjuöflunarleið.