141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Varðandi þann gríðarlega árangur að ná um 216 milljarða halla niður í 3 milljarða vil ég benda á að af þessum 216 milljarða halla voru 174 milljarðar einskiptisframlag inn í Seðlabankann. Þá standa eftir 42 milljarðar í annan halla. Ef árangurinn hefur orðið svona gríðarlegur af hverju var ríkissjóður þá rekinn með 90 milljarða halla árið 2011 og stefnir í 50 milljarða halla á árinu 2012? Ég er sammála hæstv. ráðherra um að okkur beri að vinna að þessu til að koma böndum á vandann. En við gerum það ekki með því að ræða ekki um veruleikann eins og hann er, þ.e. hvaða þættir bjuggu til þessa 216 milljarða. Það sem ég er að benda á er að okkur hefur ekki miðað nægilega hratt í öðrum þáttum sem sköpuðu þennan halla en þeim sem ég hef nefnt hér.

Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningu minni varðandi þær heimildir í fjárlögum sem áformin um leigu ríkisins og Náttúruminjasafnið byggja á. Ég hef áhyggjur af því hvernig menn umgangast fjárlögin vegna þess að ég hef ekki fundið þessar heimildir. Ég hef heldur ekki fundið heimildir sem gefa tilefni til þess að í fjölmiðlum sé tilkynnt um að stofnuð skuli ný ríkisstofnun 1. janúar, eftir rúman hálfan mánuð, sem heitir Mannréttindastofnun. Burt séð frá innihaldinu í þeirri stofnun eða annað er ég þeirrar skoðunar að þingið verði að veita heimildir til að þessi áform geti orðið að veruleika. Ég lýsi mig reiðubúinn til að leggja hæstv. ráðherra lið við að reyna að halda aftur af svona þáttum sem ég tel að verði að grundvallast á fjárlögum sem Alþingi Íslendinga hefur sett. Mér þykir umgengnin um fjárlögin ærið frjálsleg í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og þeim tillögum sem maður hefur heyrt af í fjölmiðlum. Ég vænti svara frá hæstv. ráðherra varðandi þær spurningar sérstaklega.