141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að Seðlabankinn og gjaldþrotið, ef svo má kalla, þar hafi vissulega kostað skildinginn og verið stór biti í því áfalli sem ríkissjóður varð fyrir eftir hrun var það ekki það eina sem við lentum í. Við fengum fleiri háa reikninga og það er miður. En engu að síður þá er sú leið sem ég nefndi hér áðan stór liður í því að okkur hefur tekist að ná þessum tökum á rekstri ríkissjóðs. Ég fór mjög vandlega yfir það hvernig það var gert. En við fengum fleiri reikninga en Seðlabankann, því miður fengum við ansi marga reikninga, háa reikninga, og erum enn að súpa seyðið af ýmsum öðrum ákvörðunum sem teknar voru í fortíðinni. Þar á meðal er mál sem við ræddum áðan, við hv. þingmaður Ásbjörn Óttarsson, sem er Íbúðalánasjóður. En vonandi verður það síðasti reikningurinn eftir það hrun sem reið hér yfir.

Aðeins út af náttúruminjasýningunni, þá er verið að veita heimild til að ráðstafa 400 millj. kr. ef Alþingi samþykkir fjárlagafrumvarpið og tillögurnar sem liggja fyrir. Það er þá alveg ljóst að menntamálaráðuneytið getur farið í þá vinnu sem hefur verið vel undirbúin og það eru til skýrslur að baki þessari vinnu. Þessi náttúruminjasýning mun skila sér vel, til dæmis inn í ferðaþjónustuna og líka í uppfræðslu til almennings um það sem þar verður að finna. Ég tel að þessi sýning eigi eftir að verða gríðarlega snar þáttur í því að gera Reykjavík og borgina að aðdráttarafli fyrir ferðamenn. Og það skiptir máli. Með því að samþykkja fjárlögin er þingið að veita heimild til þess að verkefnið fari af stað með þeim fjármunum sem þar munu verða inni.