141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

bókmenntasjóður o.fl.

110. mál
[20:00]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um bókmenntasjóð og fleira. Með þessu frumvarpi er lagt til að komið verði á fót sérstakri skrifstofu sem nefnd verði Miðstöð íslenskra bókmennta og er ætlað að taka við því hlutverki sem skrifstofa bókmenntasjóðs hefur gegnt. Eitt meginmarkmið frumvarpsins er að skýra og efla kynningarhlutverk þess sjóðs.

Það er mat nefndarinnar að með þessu frumvarpi skapist styrkari lagastoð fyrir kynningu á íslenskum bókmenntum hér á landi sem og erlendis en frumvarpinu er meðal annars ætlað að fylgja eftir þátttöku Íslands sem heiðursgests á bókasýningunni í Frankfurt haustið 2011. Þar var um að ræða einhverja umfangsmestu kynningu á íslenskri menningu sem farið hefur fram á síðari árum en bókasýningin í Frankfurt er stærsta bókakaupstefna í heimi og Ísland var fyrst Norðurlandanna heiðursgestur á þessari miklu samkomu.

Það er óhætt að segja að framlag Íslands hafi vakið mikla athygli og komið íslenskum útgefendum og höfundum til góða. Alls komu út 230 bækur eftir íslenska höfunda og bækur um Ísland á þýska málsvæðinu í samvinnu við rúmlega 110 forlög, auk þess sem geysilegur fjöldi upplestra og annarra menningarviðburða sem tengdust Íslandi fór fram í Þýskalandi, Austurríki og Sviss.

Það segir sína sögu um árangurinn að útlit er fyrir að fjöldi þýðingastyrkja bókmenntasjóðs úr íslensku yfir á erlend mál verði ríflega tvöfalt meiri á þessu ári en árið 2008. Er gert ráð fyrir þreföldun fram til ársins 2015 en þetta er einn sá mælikvarði sem þjóðir hafa einmitt helst notað til að meta árangurinn af kynningu viðlíka þeirri sem Ísland fékk á kaupstefnunni í Frankfurt.

Virðulegi forseti. Nefndin áréttar að þó að vel hafi tekist til með Frankfurtarmessuna er brýnt að fylgja þeirri vinnu og því verkefni markvisst eftir. Það er því sérstakt fagnaðarefni að með þessu frumvarpi sé lagt til að sett verði á fót Miðstöð íslenskra bókmennta sem hafi meðal annars það hlutverk að sjá um kynningu á íslenskum bókmenntum á erlendri grundu. Mikilvægt er að henni séu tryggðar fjárveitingar á allra næstu missirum til að sinna þessu hlutverki með sóma. Sambærilegar miðstöðvar eru starfræktar alls staðar á Norðurlöndunum og í þeim Evrópulöndum sem við miðum okkur helst við og er að sjálfsögðu löngu tímabært að bókmenntaþjóðin Ísland setji slíka miðstöð á fót með formlegum hætti. Hins vegar er mikilvægt, eins og ég nefndi, að tryggja nægilegar fjárveitingar til verkefnisins svo þessi miðstöð standi raunverulega undir nafni og að áfram verði stuðlað að öflugri kynningu á íslenskum bókmenntum á erlendri grundu.

Nefndin vekur sérstaka athygli á því að mikil þörf er fyrir frekari stuðning við metnaðarfulla íslenska bókaútgáfu, en styrkir til útgáfu og þýðinga innan lands hafa dregist mjög saman frá því sem var hjá fyrirrennurum bókmenntasjóðs. Metnaðarfullar áætlanir um áframhald sögueyjunnar Íslands og nauðsynlegar aðgerðir til að hlúa að innviðum íslenskrar bókmenningar kalla til framtíðar á mun öflugri stuðning en talað er um í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu um þetta frumvarp. Það er mat nefndarinnar að fjölbreytt og öflugt starf og traust fjármagn til frambúðar hér heima sé undirstaða sóknar á erlendum vettvangi.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á þeim sjónarmiðum sem koma fram í umsögn Bandalags íslenskra listamanna en þar er vakin athygli á því að mikilvægt sé að greina að í fjárlögum framlög til Miðstöðvar íslenskra bókmennta annars vegar og bókmenntasjóðs hins vegar. Svipuð sjónarmið koma fram í umsögnum fleiri aðila og ég legg til að nefndin taki þetta frumvarp fyrir að nýju milli 2. og 3. umr. og fjalli þá sérstaklega um þetta atriði sem og tillögu um breytingu á nafni laganna í lög um bókmenntir sem ég tel sömuleiðis að sé allrar athygli verð.

Virðulegi forseti. Í allsherjar- og menntamálanefnd var í tengslum við þessa umræðu talsvert rætt um starfsumhverfi íslenskra bókmennta og stöðu greinarinnar almennt, m.a. með hliðsjón af örum tæknibreytingum hin síðari ár. Í nefndinni kom fram mikill vilji til að láta fara fram heildstæða skoðun og mat á stöðu íslenskra bókmennta og greinarinnar með það fyrir augum að leggja fram tillögu til úrbóta svo fylgja megi eftir þeim góða árangri sem íslenskir höfundar hafa náð á undanförnum árum, bregðast við veikleikum á heimamarkaði og byggja upp öflugt stoðkerfi fyrir íslenska höfunda og bókaútgáfu til framtíðar.

Við köllum okkar gjarnan bókaþjóð og opinberar tölur staðfesta að íslenskar bókmenntir eru órjúfanlegur hluti af menningarlífi landsmanna og þjóðin reiðir sig mjög á bækur og bóklestur í sínu daglega lífi. Þannig kemur fram í nýlegri könnun Félagsvísindastofnunar að að minnsta kosti 82% Íslendinga lesa bækur sér til skemmtunar. Mat Félags íslenskra bókaútgefenda er að að minnsta kosti átta bækur séu seldar á mann á Íslandi ár hvert. Hér koma út á hverju ári um 1.500 bókatitlar og um 70% Íslendinga kaupa bækur til gjafa fyrir hver jól.

Það er athyglisvert að opinber framlög eru tiltölulega lágt hlutfall af veltu markaðarins hér á landi sem losaði tæpa 5 milljarða kr. á síðasta ári. Einkarekin bókaforlög fá á bilinu 5–10% af tekjum sínum frá hinu opinbera og er þátttaka hins opinbera, t.d. í gegnum kaup skólabókasafna eða stofnana auk opinberra styrkja, talsvert undir því sem gengur og gerist í nágrannalöndunum.

Þá er að mörgu að hyggja varðandi starfsumhverfi höfunda og bókaútgefenda á Íslandi og tækniþróunin er svo ör að mikilvægt er að láta fara fram vandaða greiningu á styrkleikum og veikleikum greinarinnar, hver eru helstu sóknarfæri hennar og vandamál sem kalla á úrbætur. Sem dæmi um veikleika má nefna stöðu íslenskrar námsgagnaútgáfu en það er eitt af sérkennum íslensks bókamarkaðar hve lítil útgáfa er á innlendu kennsluefni.

Félag íslenskra bókaútgefenda varpar fram þeirri hugmynd í umsögn sinni að stokka þurfi upp íslenska námsgagnaútgáfu og koma á fót rafrænni miðlun sem hvort tveggja í senn tryggi aðgengi nemenda að fjölbreyttu úrvali bókmennta og námsgagna innlendra höfunda gegn hóflegu gjaldi sem tryggi þá höfundum jafnframt eðlilega þóknun fyrir notkun þessa efnis. Það er athyglisvert að þau sjónarmið komu fram af hálfu útgefenda við meðferð málsins í nefndinni að hægt væri að lækka verulega námsbókakostnað nemenda í framhaldsskólum á Íslandi með slíkri rafrænni miðlun innlends efnis og er mikilvægt að allar slíkar leiðir séu skoðaðar vel.

Með hliðsjón af þessu sem ég hef nefnt leggur allsherjar- og menntamálanefnd fram breytingartillögu í formi ákvæðis til bráðabirgða þess efnis að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra skipi starfshóp sem verði ætlað að marka stefnu og leggja fram tillögur um hvernig megi bæta starfsumhverfi íslenskrar bókaútgáfu, miðlun og bókmenningu. Nefndinni verði meðal annars falið að leggja fram tillögur um rafbókavæðingu, stafrænan aðgang almennings að höfundarréttarvörðu efni, kerfisbundin innkaup bókasafna, aðgengi almennings að prentuðum og rafrænum bókum, eflingu námsgagnaútgáfu og aukið aðgengi nemenda að innlendum námsbókum.

Við leggjum til að starfshópnum verði markaður tímarammi og á hann að skila niðurstöðum fyrir 1. september 2013. Lagt er til að Félag íslenskra bókaútgefenda og Námsgagnastofnun tilnefni fulltrúa í hópinn en ráðherra skipi aðra nefndarmenn.

Ég þakka sérstaklega það frumkvæði sem Félag íslenskra bókaútgefenda sýndi í umsögn sinni við að benda á ýmis atriði sem betur megi fara í starfsumhverfi íslenskrar bókaútgáfu. Má segja að umsögn þess hafi orðið nefndinni innblástur og kveikja að þeirri breytingartillögu sem ég hef hér reifað.

Ég bind miklar vonir við þessa vinnu og vona sannarlega að hún geti hafist sem fyrst á nýju ári. Reyndar er ástæða til að vera bjartsýnn fyrir hönd íslenskra bókmennta og íslenskrar menningar almennt því að greinin fær sannarlega aukinn stuðning í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem hluti af nýjum verkefnasjóði skapandi greina.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessari breytingu um bráðabirgðaákvæði og smávægilegum tæknilegum breytingum að öðru leyti. Að áliti nefndarinnar standa allir þeir nefndarmenn allsherjar- og menntamálanefndar sem viðstaddir voru úttekt málsins og vil ég þakka nefndarmönnum öllum fyrir mikla og góða samstöðu um þetta frumvarp og málsmeðferð þess um leið og ég ítreka að ég legg til að málinu verði vísað aftur til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. til að gera þær breytingar sem ég fór yfir í framsögu minni.