141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

bókasafnalög.

109. mál
[20:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því, eins og ég gerði í rauninni áðan, að þakka nefndinni og forustumönnum hennar fyrir gott starf og góða vinnu. Eins og ég sagði áðan í öðru máli finnst mér ánægjulegt að sjá hvað menn eru óhræddir við að taka á ýmsum málum og ræða þau óháð því hvort menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Þetta mál, frumvarp til bókasafnalaga, hefur verið lengi í vinnslu. Ég held að kominn sé tími til þess, eftir að menn hafa melt þetta — margir flokkar og margir þingmenn í gegnum árin hafa melt þetta, svo ég tali nú ekki um þá fagaðila sem komu upphaflega að þessu af sveitarstjórnarstiginu, af hálfu þeirra sem best þekkja, fagmannanna í bóksafnsbransanum, ef hægt er að komast svo að orði, og ýmissa annarra — að málið sé orðið vel gerjað og vel tækt í það að afgreiðast sem lög. Þess vegna vil ég undirstrika sérstaklega að ég styð það eindregið að málið klárist núna á þessu þingi, enda kominn tími til.

Margar athyglisverðar breytingar eru raktar í nefndarálitinu en helstar vil ég nefna, án þess að fara með langt mál, að verið er að fella niður gildandi lög um almenningsbókasöfn. Með því er verið að hverfa frá því að landinu sé skipt í bókasafnsumdæmi. Verið er að telja upp allar tegundir bókasafna sem eru rekin fyrir opinbert fé og bendi ég þar sérstaklega á 2. gr. Síðan eru einnig felld út ákvæði — sem er mjög skiljanlegt miðað við nútímann — um bókasöfn í sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldraðra og í fangahúsum, eins og það er nefnt í greinargerðinni.

Þetta eru að mínu mati skynsamlegar breytingar. Það skiptir miklu að málið verði afgreitt núna. Ég vil líka vekja athygli á því sem segir í nefndarálitinu og við fjölluðum sérstaklega um þá gagnrýni, þ.e. að ekki væri kveðið á um skyldu sveitarstjórna til að ráða forstöðumann sem lokið hefði prófi í faginu. Við fórum yfir það, viljum benda á að það geti orðið íþyngjandi fyrir fámennari sveitarfélög að krefjast slíkrar þekkingar og ekki síður líka vegna þess að bókasöfnin eru að breytast. Það er ákveðin þróun á heimsvísu, mundi ég vilja fullyrða, um eðli bókasafna þannig að þau geta verið mjög ólík að stærð og umfangi. Að því sögðu væri mjög eðlilegt, og við leggjum það til, að þetta atriði verði engu að síður óbreytt. En við fjölluðum um það og ég tel að það sé mikilvægt að þeir aðilar sem komu með þeirri gagnrýni viti að við ræddum þetta og fórum fram og til baka yfir þá þætti sem okkur var bent á. En þetta er niðurstaða nefndarinnar og að mig minnir vorum við öll sammála án þess að nokkur væri með fyrirvara.

Ég vil aftur þakka fyrir vönduð vinnubrögð í nefndinni, skemmtilega vinnu sem síðan skilar af sér þeirri afurð sem nefndarálit okkar er.