141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

190. mál
[20:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég er ekki á þessu nefndaráliti vegna þess að ég var að sinna embættiserindum í útlöndum, en ég vil koma sérstaklega hingað upp til að vekja athygli á því að ég styðji þetta mál. Ég vil geta þess líka að annar sjálfstæðismaður sem situr í nefndinni skrifar undir þetta álit. Þetta er ekki mjög stór hópur sem við erum að ná í en það er afar eðlilegt að við tökum tillit til hans þegar við erum á þessu yfirgangstímabili varðandi breytingu á lögum um kennaramenntun og umhverfi kennaramenntunar.

Þetta er kannski líka það dásamlega við það sem við hjá löggjafarvaldinu getum gert. Við getum brugðist við mjög raunhæfum og eðlilegum óskum fólks þegar við stöndum fyrir ákveðinni stefnubreytingu í svona risamálum sem kennaramenntunin sem slík er. Alþingi allt, allir flokkar tóku þá að mínu mati mikilvægu pólitísku ákvörðun að efla kennaramenntun. Það var gert með því fyrst og fremst að lengja kennaramenntunina og líta til reynslu annarra landa, fyrst og fremst Finna sem eru með fimm ára kennaramenntun. Við litum til þeirra ekki síst vegna þess að þeir hafa verið að skora vel í öllum alþjóðlegum könnunum og það eru mjög margir sem benda á að við eigum í auknum mæli að líta til þeirra hvað ýmislegt varðar, iðn- og starfsnám og margt, margt fleira.

Við gerðum það hér á þinginu á sínum tíma með kennaramenntunina. Fyrst að ráðherra er hér í salnum vil ég sérstaklega brýna hann í þeirri umræðu sem við höfum oft tekið varðandi það hvernig við getum nýtt okkur lögin til þess að efla kennaramenntunina sem slíka.

Hér er ég ekki að fara út í umræðu varðandi launakjör kennara eða starfsumhverfið sem slíkt, það er alveg sérumræða sem skiptir miklu máli varðandi það hvernig við getum eflt kennaramenntun til lengri tíma, ekki bara til skemmri tíma. En ekki síður hitt, það er að fara yfir hvernig við skipuleggjum kennaranámið þá, hvernig kennaramenntun ætlum við skila. Við erum búin að fara yfir það og samþykkja að það verði fimm ára nám. Það er eitt mikilvægasta verkefni kennslumenntunarstofnana á háskólastigi núna á þessum tíma hvernig kennaramenntun þær eru að móta, hvort sem það er Háskólinn á Akureyri eða Háskóli Íslands. Því tel ég mikilvægt, án þess að hinu akademíska frelsi háskólanna sé raskað, að við, bæði ráðuneytið en líka við sem erum í allsherjar- og menntamálanefnd, eigum þetta samtal með háskólastofnununum þannig að menn átti sig á hverju þeir eru að ná fram þegar menn samþykkja svona stefnumótunar- og stefnumarkandi lög eins og það að efla kennaramenntun með því að lengja hana.

Ég sá það m.a. fyrir mér að hluti af þessum fimm árum væri starfsmenntun inni í skólunum, hvort sem það væri hálft ár eða eitt ár. Nemar færu þá inn í skólana í ríkari mæli og ég er alveg sannfærð um að sveitarstjórnarstigið mundi fagna slíkum breytingum og þar með efla fagfólk, hvort sem það er innan leikskólastigsins, sem er fyrsta skólastigið, eða grunnskólans.

Þetta er það sem ég vildi sagt hafa í tengslum við þetta. Þetta mál er fullkomlega eðlilegt. Við sjálfstæðismenn styðjum það eins og það er lagt fram hér og breytingartillögu hv. allsherjarnefndar um leið. Ég vildi vekja athygli á því að við þurfum að halda áfram umræðunni um hvernig við ætlum að efla kennaramenntunina í landinu og hvernig við getum gert það áfram saman, því við höfum verið nokkuð samhent í því máli. Þar verðum við að fá alla að borðinu, bæði háskólastofnanirnar, framkvæmdarvaldið, löggjafarvaldið en líka sveitarstjórnarstigið og svo náttúrlega heimilin og skólana sem slíka til þess að menn verði meðvitaðir um hvert við stefnum í þessu annars mikilvæga máli.