141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[20:48]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, með síðari breytingum, þ.e. um fjölda dómara.

Með frumvarpinu er lagt til að heimild til að skipa varadómara við Hæstarétt verði rýmkuð. Annars vegar mun 70 ára aldurshámark ekki taka til setningar varadómara í tiltekið mál eða til skemmri tíma allt að einu ári og hins vegar er lagt til að sett verði tímabundin heimild til að setja varadómara þótt sæti einskis dómara sé laust við réttinn. Einnig er í frumvarpinu lagt til að fjöldi héraðsdómara verði áfram 43 út árið 2013 en eftir þann tíma verði ekki skipað í þau embætti sem losna þar til fjöldi dómara er 38. Þeim fækkar því með tímanum úr 43 í 38.

Með lögum nr. 12/2011 var dómurum við Hæstarétt fjölgað tímabundið í 12 en sú fjölgun gengur til baka með því að skipa ekki í embætti dómara sem losna eftir 1. janúar 2013. Þungum málum fjölgaði og mikilvægt var að skera úr um fordæmisgefandi mál. Með því að fjölga dómurum við réttinn var komið í veg fyrir að óafgreidd mál mundu dragast mjög lengi í málsmeðferð. Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að gera megi ráð fyrir að sú fjölgun dómara við Hæstarétt sem leiddi af áðurnefndum lögum gangi til baka á næstu árum og einnig eru uppi hugmyndir um að koma á fót millidómstigi. Jafnframt er líklegt að á næstu missirum dragi úr því álagi sem fylgdi efnahagsáföllunum. Af þeim sökum þykir ekki tilefni til að fresta því að dómurum við réttinn fækki frá 1. janúar 2013 eftir því sem þeir láta af embætti. Þess í stað er lagt til að lögfest verði tímabundin heimild til ársloka 2016 til að setja varadómara til að taka sæti í einstökum málum þótt ekkert sæti dómara sé autt vegna vanhæfis, leyfis eða forfalla. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið.

Við ræddum einnig þá breytingu að 70 ára aldurstakmark dómara gildi ekki um varadómara, og þá heimild að setja megi dómara vegna forfalla skipaðs dómara til skemmri tíma allt að einu ári þótt setti dómarinn sé orðinn 70 ára. Nefndin bendir á að með þessari breytingu geti fyrrverandi hæstaréttardómarar tekið sæti í einstökum málum sem og hæstaréttarlögmenn eða prófessorar, svo lengi sem þeir fullnægja skilyrðum um embættisgengi, og miðlað af reynslu sinni en það ætti að stuðla að aukinni skilvirkni í dómskerfinu. Í umræðum í nefndinni var almennt álitið að það væri mjög heppilegt og jákvætt að hægt væri að nýta reynslu og þekkingu eldri dómara og hæstaréttarlögmanna til að taka sæti varadómara við réttinn. Það gæti jafnvel markað almennt veginn að sveigjanlegri starfslokum í samfélaginu en við búum við í dag og nýtum þannig krafta þeirra sem eldri eru. Mannsævin hefur lengst mjög mikið á fáum árum og fólk í fullu fjöri og fullu standi til að sinna ábyrgðarstörfum langt fram yfir það sem nú eru hefðbundin starfslok.

Fjöldi ágreiningsmála vegna gjaldþrotaskipta hefur tæplega tífaldast, en þau mál eru umfangsmikil og tímafrek og af þeim sökum hefur álag á héraðsdómara aukist. Það er álit nefndarinnar að leggja verði áherslu á nauðsyn þess að tryggja að dómstólarnir geti sinnt sínu lögbundna hlutverki og tryggt verði að málarekstur fyrir dómstólum dragist ekki, sbr. ákvæði 70. gr. stjórnarskrár um að allir eigi rétt á að fá úrlausn mála um réttindi sín og skyldur eða ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Af þeim sökum telur nefndin mikilvægt að framlengja ákvæði laganna um að fjöldi héraðsdómara verði 43 um eitt ár, til 1. janúar 2014.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þingmenn Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Tryggvi Þór Herbertsson skrifa undir með fyrirvara er lýtur að mikilvægi þess að varamenn við Hæstarétt Íslands verði ekki valdir handahófskennt heldur fari fram heildstætt mat í þeim efnum. Jafnframt skorti á samræmda stefnumörkun þvert yfir stjórnsýsluna varðandi atvinnuþátttöku þeirra sem hafa náð 70 ára aldri.

Birgitta Jónsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta rita auk mín hv. þingmenn Skúli Helgason, Þráinn Bertelsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Siv Friðleifsdóttir og eins og áður var nefnt hv. þingmenn Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Tryggvi Þór Herbertsson, með þeim fyrirvara sem ég nefndi.