141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[20:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Þetta er eitt af þeim málum þar sem maður hugsar: Á ég að vera alfarið á móti því? Það taldi ég ekki heppilegt af því að ákveðin sjónarmið í málinu sem slíku eru mjög skiljanleg. Ég er þar af leiðandi á álitinu með fyrirvara og set eiginlega mjög mikinn fyrirvara við málið í heild sinni. Ég tel þó að við 1. umr. um málið hafi hæstv. innanríkisráðherra útskýrt það og komið með eitt mjög veigamikið atriði til stuðnings því sem varð kannski til þess að ég hugsaði að það væri kannski betra að vera á málinu en alfarið á móti því.

Vel að merkja þá hef ég sagt að við eigum að hafa það mjög til athugunar hverju sinni hvernig á að skipa Hæstarétt. Í gegnum tíðina hefur það verið umdeilt, gott og vel, ég var frekar hlynntari gamla fyrirkomulaginu en þessu nýja fyrirkomulagi því að ég tel einfaldlega betra að kjörnir fulltrúar beri pólitíska ábyrgð á þeirri skipan hverju sinni en ekki menn sem hafi ekki slíka ábyrgð, en sitt sýnist hverjum.

Ég held að það sé líka tilefni fyrir nefndina, hvort sem það er núna eða á nýju þingi með nýkjörnu Alþingi, að fara verulega vel yfir það hvernig hæstaréttardómarar eru skipaðir. Það er einn angi af þessu máli og þess vegna tel ég mikilvægt að draga það fram sem hæstv. innanríkisráðherra sagði í sínu máli. Sá hópur sem metur meðal annars hæfi dómara við Hæstarétt í dag lítur m.a. til starfsreynslu. Þeir dómarar sem hafa oft verið skipaðir varadómarar eða dregnir inn sem varadómarar eða settir tímabundið hafa eðli málsins samkvæmt öðlast meiri reynslu en aðrir sem hafa ekki fengið sömu tækifæri. Jafnræðisreglan er þá kannski ekki í jafnmiklum hávegum höfð og hún ætti að vera, það geta komið upp þau tilvik að einn einstaklingur er einhverra hluta vegna oft skipaður sem varadómari í ákveðnum málum eða dreginn inn sem varadómari í tilteknum málum eða hefur verið settur tímabundið meðan annar umsækjandi hefur ekki fengið slík tækifæri. Að því leytinu til má segja að þessi 70 ára regla geti dregið úr slíkum áhrifum.

Hins vegar tel ég að menn þurfi að fara vel yfir — og þetta er sagt í mestu vinsemd — það stóra mál sem er að skipa hæstaréttardómara. Ég tel að menn eigi að fara vel yfir þá gagnrýni sem hefur verið sett fram, til að mynda af fyrrverandi hæstaréttardómara Jóni Steinari Gunnlaugssyni en líka ýmsum öðrum um núgildandi fyrirkomulag. Ég held að þó að menn vilji gefa þessu nýja fyrirkomulagi ákveðinn tíma verðum við engu að síður að veita kerfinu aðhald og það er bara Alþingi sem getur gert það, að mínu mati, ekki framkvæmdarvaldið eins og það er uppbyggt núna.

Það hefur verið þannig í gegnum árin að Hæstiréttur hefur ávallt ákveðið sjálfur hverjir yrðu varadómarar í tilteknum málum. Mismikill kostnaður hefur hlotist af varadómurum í gegnum árin eðli málsins samkvæmt út frá málafjölda, en það er sjálfsagt og eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort núverandi fyrirkomulag sé hið eina rétta. Með þessu frumvarpi erum við í raun að framlengja það fyrirkomulag en um leið að breyta því að því leytinu til að við tökum inn þessa 70 ára reglu, þ.e. að 70 ára aldurshámark muni ekki taka til setningar varadómara í tiltekið mál eða til skemmri tíma, allt að einu ári en aldrei meira en einu ári.

Hvað þýðir það? Ég hef heyrt það, verandi lögfræðingur og ég hef talað við ýmsa lögfræðinga í tengslum við þetta, að um þetta eru svolítið skiptar skoðanir. Ég held að það eitt að menn hafi skiptar skoðanir um 70 ára regluna segi manni að það eigi eftir að móta þessa reglu af hálfu stjórnsýslunnar og taka umræðuna um það hvort við eigum ekki að losa aðeins um þessi mörk, þennan hlemm sem er settur á fólk á besta aldri sem er 70 ára. Ætlum við ekki einfaldlega að breyta þessu, ekki bara á málasviði Hæstaréttar heldur annars staðar í stjórnsýslunni líka? Mér finnst að sú stefnumörkun ætti að eiga sér stað. Það vill þannig til að hæstv. innanríkisráðherra fer af stað með þetta mál en umræðan öll er eftir. Það er það sem við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins viljum líka vekja athygli á í þessu máli.

Það er best að draga það fram að ég tel mjög eðlilegt að ákvæðið um að dómarar í héraði skuli vera 43 verði framlengt um eitt ár, til janúar 2014. Ég held að það sé eðlileg framlenging. Mínar vangaveltur lúta fyrst og fremst að Hæstarétti og að Hæstiréttur verði undir ákveðnu eftirliti. Það sé ekki bara Hæstiréttur sem hafi eftirlit með löggjafarvaldinu heldur líka að löggjafarvaldið nýti sér sinn rétt, ekki síst allsherjar- og menntamálanefnd sem hefur með dómstólana að gera, til að fara yfir málefni héraðsdómstólanna og ekki síður Hæstaréttar og hvernig skipan þeirra eigi að vera.

Síðan vil ég vekja athygli á máli sem ég er flutningsmaður að, þingsályktunartillögu um að hæstv. innanríkisráðherra semji nú þegar lagafrumvarp um koma á millidómstigi. Það er ekki bara einn starfshópur heldur tveir sem hafa komist að þeirri ótvíræðu niðurstöðu og ítrekað að koma eigi upp millidómstigi á sviði sakamála og á sviði einkamála. Það er ótvíræð niðurstaða fagaðila, hvort sem það eru lögmenn, fulltrúar dómstóla eða aðrir sem komu að starfshópunum um að setja á laggirnar millidómstig. Það væri mikil réttarbót og við sjálfstæðismenn höfum ályktað á landsfundum trekk í trekk að koma þurfi á millidómstigi. Þess vegna fannst mér alveg með ólíkindum að upplifa það við fjárlagaumræðuna — af því að fjárlagaumræðan er enn þá svolítið fersk í minni enda margt að segja og margar athugasemdir sem við settum fram við þetta annars ömurlega fjárlagafrumvarp sem er ekki enn þá klárað — að ekki hafði verið hugað að þessu. Ein af athugasemdum okkar við frumvarpið var sú að hæstv. innanríkisráðherra skuli ekki gera ráð fyrir því á næsta ári að eyrnamerkja fjármagn í undirbúning þess að koma á millidómstigi og það finnst mér miður.

Hæstv. innanríkisráðherra hefur sagt mér það undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir að hann sé að vinna að þessu máli og fengið einn tiltekinn einstakling til að vinna að því. En það er búið að undirstrika hvað gera eigi af hálfu starfshópanna. Niðurstöðurnar eru skýrar, það á að koma á millidómstigi. Við í allsherjar- og menntamálanefnd höfum ítrekað sagt það og bent hæstv. innanríkisráðherra á það, m.a. á opnum fundum hans í upphafi þings, að þetta eigi hann að gera. Mér finnst því ekki við hæfi að ekki sé farið í slíka vinnu.

Þetta vildi ég draga fram í tengslum við þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla af því að það er þýðingarmikið að menn hafi í huga að allar breytingar á skipan dómstóla og hvernig við högum þeirri skipan getur haft áhrif á það hvernig við byggjum upp millidómstig í framtíðinni.

Við sjálfstæðismenn erum því með fyrirvara. Það er ekki ólíklegt að skiptar skoðanir verði um þetta mál og það held ég að sé bara fínt. Ég hef mína fyrirvara í þessu máli og mun að öllum líkindum sitja hjá, en ég skil ákveðna þætti þessa máls afar vel og sérstaklega þá er snerta héraðsdómstólana. Það er tímabundna ákvæðið, ákvæðið sem við erum í tímaþröng með. Hitt ákvæðið í 1. og 2. gr. laganna er ákvæði sem mér finnst að hafi verið kannski ekki smyglað með en sett með til að nýta ferðina. 3. gr. er sú sem skiptir máli upp á tímann.

Að öðru leyti geri ég ráð fyrir að málið haldi áfram til 3. umr. eftir þessa umræðu og fari ekki til nefndar.