141. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2012.

dómstólar.

475. mál
[21:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi fyrst og fremst koma hingað upp til þess að taka undir orð sem hafa falli í þessari umræðu varðandi varadómara. Ég velti fyrir mér öðrum ákvæðum frumvarpsins en ætla svo sem ekki að gera sérstakan ágreining út af 3. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að hin tímabundna fjölgun héraðsdómara standi eitt ár í viðbót. Í mínum huga er þetta ekki stórt mál þó að ég geti tekið undir það að nokkuð skorti á að ákvæðið sem slíkt hafi verið rökstutt, en þar sem hér er aðeins um framlengingu um eitt á að ræða geri ég ekki mikinn ágreining út af því.

Fram hefur komið að hugsanlega muni tveir héraðsdómarar láta af störfum fyrir aldurs sakir á árinu og út af fyrir sig er engin ástæða til að ætla að þeir verði fleiri. Þess vegna finnst mér dálítið bratt þegar fullyrt er í greinargerð með frumvarpinu að vera kunni að um mikla fjölgun verði að ræða — ég man ekki hvernig það er orðað en alla vega er dálítið dramatískt orðalag þar af litlu tilefni. Látum það vera. Ég ætla ekki að gera sérstakan ágreining út af fjölda héraðsdómara.

Það sem mér finnst umhugsunarefni í þessu eru einmitt þau atriði sem hv. nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Tryggvi Þór Herbertsson, gera athugasemd við varðandi varadómarana. Annars vegar er það 70 ára aldursmarkið sem má auðvitað færa rök fyrir bæði með og á móti. Það má færa rök fyrir því að það geti verið gott að nýta reynslu þeirra sem orðnir eru sjötugir og eru oft og tíðum, sem betur fer, í fullu fjöri andlega og líkamlega, það á við í Hæstarétti eins og víða annars staðar. Það er hins vegar hárrétt sem hér hefur verið bent á í umræðunni að slík breyting ætti fremur heima í almennri endurskoðun á aldursmörkum frekar en í þessu sérstaka tilviki. Hér er almenn regla um að menn láti af störfum ekki síðar en sjötugir. Það er því svolítið sérstakt að taka þetta dæmi eitt út. Það getur verið gott, eins og ég sagði, að nýta reynslu þeirra sem komnir eru á þennan aldur og hafa vissulega mikla reynslu. Aftur á móti hefði manni fundist fara betur á því að breyting af þessu tagi væri þáttur í einhverri heildarendurskoðun á þeim viðmiðum sem gilda á þessu sviði í landinu.

Ég velti t.d. fyrir mér: Hvað um aðra embættismenn? Hvað um aðra embættismenn ef rök eru fyrir því að nýta reynslu fyrrverandi hæstaréttardómara sem orðnir eru sjötugir til þess að koma inn sem varadómarar og dæma við réttinn, hvað með þá sem skipaðir eru tímabundið sem staðgenglar í önnur störf? Mætti ekki segja að það sama væri réttlætanlegt varðandi saksóknara, lögreglustjóra, sýslumenn eða aðra embættismenn á einhverjum allt öðrum sviðum, svo að maður fari út fyrir svið lögfræðinnar, þar sem reynir á tímabundna skipan? Það er svolítið sérstakt að þetta skuli dregið fram.

Það sem ég hef hins vegar mestar áhyggjur af í þessu frumvarpi er 5. gr. Rétt er að geta þess, eins og kemur svo sem fram í málinu, að í dag er fyrir hendi heimild fyrir ráðherra að skipa varadómara samkvæmt tillögu forseta Hæstaréttar. Það á við þegar dómari lætur af störfum eða forfallast vegna veikinda eða leyfis eða vanhæfis í tilteknu máli, þá getur forseti Hæstaréttar gert tillögu um að ráðherra skipi varadómara. Ég held samt að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að átta okkur á því að sú heimild sem felst í 5. gr. er miklu víðtækari. Hún er eins og fram kemur ekki bundin við það að um einhver forföll sé að ræða í réttinum heldur er verið að tala um viðbótardómara. Það má segja að þegar um forföll er að ræða sé búið að setja ákveðið þak á hversu marga sé hægt að kalla til með þessum hætti, þeir verða þó ekki miðað við gildandi lög fleiri en tólf, þ.e. heildarfjöldi hæstaréttardómara. Ekki er um neitt slíkt skilyrði að ræða í 5. gr. Nú kann að vera að einhverjar vangaveltur um þetta séu meira fræðilegar en raunhæfar, en við vitum það auðvitað ekki fyrr en á reynir. Það er ekkert í lagatextanum sem útilokar að fleiri menn verði skipaðir, jafnvel nokkrir, og kannski skipaðir aftur og aftur í einhverjum málum.

Þar sem heimildin gildir í fjögur ár, sem er býsna langur tími, þá er hún miklu meiri fyrir vikið og heimild ráðherra samkvæmt tillögu forseta Hæstaréttar miklu meiri, sem þýðir að valdið liggur meira og minna hjá forseta Hæstaréttar. Það er verið að auka þarna svigrúm hans mjög mikið hvað þetta varðar og til langs tíma. Ég velti fyrir mér hvort þau rök sem færð eru fram fyrir þessari breytingu séu nægilega sterk, sérstaklega þegar horft er til þess að þetta eigi að gilda í fjögur ár. Það er ekki verið að tala um að þessi heimild gildi í eitt ár, eins og í tilviki héraðsdómara þar sem verið er að viðhalda fjölda þeirra í eitt ár, heldur er verið að tala um fjögur ár.

Hæstv. forseti. Ég velti einfaldlega fyrir mér þessari spurningu: Hefði ekki, ef fyrir liggur rökstutt mat á því að þörf sé fyrir fleiri dómara í Hæstarétti næstu fjögur árin, verið hægt að fara einhverja aðra leið í þessu sambandi? Er það ekki hugsanlegt? Er ekki hugsanlegt að hægt hefði verið að fara einhverja aðra leið? Það liggur í eðli varadómaraheimildarinnar að verið er að bregðast við einhverjum aðstæðum sem koma upp og eru jafnvel ófyrirsjáanlegar, samanber dómari verður veikur, dómari er vanhæfur í tilteknu máli vegna einhverra aðstæðna sem tengjast honum eða fjölskyldu hans eða eitthvað þess háttar. Einhver ófyrirsjáanleg atvik valda því að það þarf að kalla til varadómara. Þetta er ekki þess eðlis. Þetta er heimild sem á að gilda í fjögur ár um að forseti Hæstaréttar geti gert tillögu til ráðherra um að skipa ótiltekinn fjölda varadómara til að dæma í ótilteknum fjölda mála.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að þótt það kunni að vera ákveðin rök fyrir hagræðingu að gera þetta með þessum hætti þá gengur þetta að mínu mati gegn þeirri grundvallarreglu varðandi skipan dómara í Hæstarétt að þeir þurfi að jafnaði að fara í gegnum það lögboðna ferli sem þar gildir, hæfisnefnd og þess háttar. Ekki er gert ráð fyrir að menn geti sótt um að verða varadómarar.

Eins og lesa má út úr fyrirvara hv. þingmanna Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Tryggva Þórs Herbertssonar felst í þessu ákveðin hætta á geðþóttaákvörðunum eða hætta á því að aðrir geti litið svo á að um geðþóttaákvarðanir sé að ræða. Ekki ætla ég mönnum vísvitandi að misbeita valdi af þessu tagi, en það er ákveðin hætta á því að slíkar ákvarðanir verði ekki hafnar yfir vafa. Ef þarna væri um að ræða heimild til eins árs sem yrði síðan endurskoðuð að ári þá væri þetta öllu betra, það væri öllu ásættanlegra ef hægt væri að nálgast málið með þeim hætti.

Fjögur ár eru býsna langur tími. Það eru auðvitað dæmi um að hæstaréttardómarar, sem hafa verið um sextugt eða rúmlega sextugir þegar þeir tóku við embætti, sitji ekki nema fjögur ár og fóru þó í gegnum allan þann prósess sem því fylgir, voru metnir eins og aðrir umsækjendur og ferill þeirra og annað borið saman. Ég velti fyrir mér hvort slík leið væri ekki ásættanlegri. Ef það væri bara reynt að meta hversu marga hæstaréttardómara menn teldu raunhæft að þyrfti til að anna störfum í réttinum næstu fjögur árin? Hversu marga þarf? Getum við fengið eitthvað mat á því? Menn treystu sér til þess að fjölga hæstaréttardómurum fyrir tveimur árum á grundvelli slíks mats. Héraðsdómurum var líka fjölgað tímabundið á grundvelli slíks mats. Þegar við horfum fjögur ár fram í tímann, það er meira en bara hálft, eitt ár eða eitthvað svoleiðis, það er verið að horfa fjögur ár fram í tímann, þá velti ég fyrir mér: Treysta menn sér ekki til þess að taka ákvörðun um það að hæstaréttardómurum verði tímabundið fjölgað um einn, tvo, þrjá eða hver sem niðurstaðan af því mati yrði frekar en að fara leið sem þýddi að hægt yrði að setja inn dómara utan réttarins sem varadómara samkvæmt tillögu forseta Hæstaréttar með skipan ráðherra án þess að allra þeirra formreglna væri gætt sem þarf undir venjulegum kringumstæðum að hafa í heiðri þegar dómarar eru skipaðir? Ég velti þessu upp, hæstv. forseti.

Ég verð að játa að mér finnst hvorki ráðuneytið né talsmenn meiri hlutans í nefndinni, sem samþykkja málið fyrirvaralaust, hafa rökstutt nægilega hvers vegna nauðsynlegt sé að fara þessa leið, sem er vissulega óvenjuleg og á skjön við það sem við erum vön í sambandi við skipan dómara í landinu. Oft hefur verið deilt um skipan dómara en það hefur þó ekki verið deilt um það þegar menn eru settir í réttinn að gæta þurfi að ákveðnum formreglum, mat þurfi að fara fram og menn eigi kost á að sækja um stöðurnar o.s.frv. Frá því er sú undantekning að í einstökum tilvikum, ófyrirsjáanlegum tilvikum, eins og þegar tiltekinn dómari forfallast af einhverjum sökum, er hægt að bregðast við því óvænta ástandi, en þegar menn taka ákvörðun til fjögurra ára er ekki hægt að bera fyrir sig óvænt ástand eða einhverjar uppákomur, það er nokkuð sem á að vera fyrirsjáanlegt og spurningin er hvort lagareglan eigi ekki að mótast af því.